Haukastelpur fara í heimsókn í Kaplakrika

Díana GuðjónsdóttirÁ laugardaginn fer meistaraflokkur kvenna í handbolta í heimsókn í Kaplakrika og leika þá gegn FH. Leikurinn hefst klukkan 16:00. Það verður því stór handboltadagur hjá Haukamönnum á laugardaginn því fljótlega eftir að leiknum lýkur halda Haukamenn á Ásvelli og sjá meistaraflokk karla leika gegn Flensburg, en sá leikur hefst klukkan 19:30.

Í tilefni af leiknum hjá stelpunum fengum við Díönu Guðjónsdóttur, þjálfara liðsins, í létt spjall.

Nú er Haukaliðið í 2. sæti deildarinnar með 10 stig eftir 6 leiki, hefur aðeins tapað gegn toppliði Stjörnunnar. Er þetta árangur sem þú bjóst við í upphafi tímabils?

– Þar sem það voru frekar miklar breytingar á hópnum frá því í fyrra þá tókum við þá ákvörðun að fara bara í hvern leik fyrir sig og gera okkar best. Við erum búnar að æfa vel, spila ágætlega og vonandi verður 

áframhald á því. 

Bryndís, markmaður liðsins, hefur varið mjög vel í vetur, þar af 28 bolta á móti Fram síðastliðinn laugardag. Telur þú hana vera farna að bakna á landsliðsdyrnar?

– Bryndís er búin að vera mjög góð í vetur og hefur varið vel í öllum okkar leikjum. Þeir hljóta að skoða hana. 

Hvernig finnst þér nýju leikmenn liðsins vera að koma inn í hópinn, þær Ester, Nína Arnfinns og Tatanja?

–  Þær hafa fallið mjög vel inn í hópinn. Tatönju þekki ég náttúrulega mjög vel þar sem hún æfði undir minni stjórn í 2 ár hjá HK. Ester og Nína koma mjög vel út. Einnig ungu stelpurnar sem eru að æfa með okkur sem voru ekki í fyrra, þær eru alltaf að bæta sig.

Það er mikill munur á spilamennsku liðsins frá því síðasta vetur, þegar þú varst með liðið í fyrsta skipti. Hvað  telur þú ástæðu þess vera?

– Það eru margir hlutir sem koma þar inn í. Ég hef kannski breytt einhverjum áherslum frá því í fyrra. Leikmenn óænægðir með tímabilið í fyrra og ákveðnir í að gera betur. Ekki fleira gefið upp í bili.

Nú hefur verið frekar illa mætt á leiki í N1 deild kvenna. HSÍ gerði átak í áhorfendamálum N1 deildar karla í fyrra, telur þú ekki þurfa að gera annað eins í kvennaboltanum?

– Jú það er engin spurning um að  það þurfi að gera það. Einnig finnst mér félögin þurfi að vinna í því að það sé skylda hjá öllum yngri flokkum félagsins að mæta á heimaleiki í meistaraflokki.

Næsti leikur er á móti FH, næstkomandi laugardag. Hvernig leggst sá leikur í þig?

– Hann leggst mjög vel í mig, bara alveg eins og allir leikir gera. Ég á ekki von á öðru en að þetta verði hörkuleikur. FH liðið er með margar mjög skemmtilegar handboltakonur og voru í toppleik núna um helgina á móti Stjörnunni, sem þær töpuðu með einu marki. Þannig þetta verður mjög erfiður leikur. 

Er eitthvað sem Díana vill segja við Haukafólk, og aðra handboltaáhugamenn, að lokum?

– Stuðningurinn frá ykkur skiptir okkur mjög miklu máli. Gaman er að sjá hvað margir eru farnir að mæta á leikina okkar. Endilega haldið því áfram, það er gott að vita af ykkur í stúkunni. Áfram Haukar!

 

Við þökkum Díönu kærlega fyrir að svara þessum spurningum okkar og hvetjum fólk til að mæta í Kaplakrika á laugardaginn og styðja stelpurnar.