Dramatíkin ræður víðar ríkjum en á EM í Austurríki því tvær framlengingar þurfti til svo að úrslit réðust í leik Stjörnunnar og Hauka í átta liða úrslitum Eimskipsbikarkeppni kvenna í gærkvöldi. Haukastelpur spiluðu sinn besta leik á tímabilinu og voru grátlega nærri því að slá bikarmeistarana úr leik á eigin heimavelli. Þegar skammt var til loka venjulegs leiktíma höfðu Haukar góða forystu en misstu hana niður og Ramune Pekarskyte tryggði þeim framlengingu með því að skora úr víti að loknum venjulegum leiktíma. Haukastelpur eiga því harma að hefna þegar þessi lið mætast á laugardaginn kl. 16 á Ásvöllum í N1 deildinni.
Stjörnustúlkur tóku Ramune úr umferð nær allan leikinn en hún reif sig lausa á köflum og skoraði einnig grimmt úr annarri bylgju í hraðaupphlaupum þar sem mun meiri kraftur var í henni en reyndin hefur verið í undanförnum leikjum. Ester Óskarsdóttir stjórnaði sóknarleik Hauka með miklum ágætum og spilaði sinn langbesta leik til þessa. Þá kom Þórunn Friðriksdóttir mjög sterk inn í sóknarleik Haukanna, skoraði mikilvæg mörk og spilaði eins og þetta væri hennar hundraðasti úrslitaleikur. Heiða Ingólfsdóttir varði þó nokkra bolta á mikilvægum köflum í leiknum. Annars var það baráttan og sigurviljinn sem einkenndi leik Haukanna að þessu sinni og grátlegt að það skyldi ekki duga til í þetta skipti. Bæði lið voru orðin mjög þreytt í framlengingunum en Stjörnustúlkur náðu að innbyrða sigur 34-32.
Á laugardaginn mætast þessi sömu lið á nýjan leik í N1 deildinni. Þá fer leikurinn fram að Ásvöllum og hvetjum við Haukafólk til að fjölmenna. Í kjölfarið er hægt að skella sér á Eiðsmótið í Strandgötunni og sjá Haukar-Gróttu en að þeim loknum er tímabært að fara aftur á Ásvelli og horfa á Ísland – Danmörk á breiðtjaldi.