Haukar sigruðu Þrótt Reykjavík í kvöld, 3-2 í Lengjubikar karla. Þetta var næst síðasti leikur Hauka í riðlinum, en þeir leika síðan aftur á sunnudaginn gegn BÍ/Bolungarvík í Kórnum klukkan 16:00.
En að leiknum í kvöld, markalaust var í fyrri hálfleik og ekkert mark var komið í leikinn eftir klukkutíma leik. Það átti hinsvegar eftir að breytast næsta korterið því á 62.mínútu braut Viktor Unnar Illugason nýr leikmaður Hauka ísinn og skoraði fyrsta mark leiksins og þar með sitt fyrsta mark fyrir Hauka enda var þetta um að ræða fyrsti leikur hans með Haukum, eftir að hann kom á láni frá Breiðablik.
Alexander Freyr Sindrason kom síðan inná sem varamaður mínútu síðar og á 65. mínútu var hann búinn að koma Haukum yfir í 2-0. Haukar héldu síðan áfram að raða inn mörkunum því Aron Jóhannsson skoraði þriðja mark Hauka í leiknum á 70.mínútu.
Þróttararnir gáfust ekki upp og skoruðu tvö mörk, það fyrra á 74.mínútu og það síðara á 76.mínútu.
Fleiri urðu mörkin ekki og Haukasigur því staðreynd á Ásvöllum í kvöld. Haukar hafa þar með sigrað síðustu þrjá leiki sína í Lengjubikarnum eftir að hafa tapað fyrstu þrem.
Eins og fyrr segir eiga þeir einn leik eftir áður en Íslandsmótið hefst: Haukar – BÍ/Bolungarvík í Kórnum á sunnudaginn; 16:00!
ALLIR Á VÖLLINN!