Haukasigur í tilþrifalitlum Hafnarfjarðarslag

Í dag fór fram sannkallaður Hafnarfjarðarslagur í N1 deild kvenna þegar FH stelpur heimsóttu Haukastelpur á Ásvelli. Fyrir leikinn voru Haukastelpur í efsta sæti deildarinnar og FH í því fimmta. Bæði liðin komust í undanúrslit í Eimskipsbikarnum í vikunni.

Leikurinn var vægast sagt tilþrifalítill en staðan í hálfleik var 19 – 11, Haukum í vil. Í síðari hálfleik var spilamennska Haukastelpna ekki upp á marga fiska en þær náðu þó að tryggja sér sigur, 29 – 26. Ramune átti stórleik og skoraði 14 mörk í leiknum.

Til að byrja með skiptust liðin á að skora og var leikurinn í járnum þar til í stöðunni 10 – 9. Þá áttu Haukastelpur góðan kafla og náðu 8 marka forskot fyrir hálfleik, 19 – 11.

Í síðari hálfleik voru FH stelpur mun betri en sóknarleikur Hauka var ekki upp á marga fiska. FH náðu að minnka muninn niður í 2 mörk, 28 – 26, en Bryndís varði á mikilvægum tímapunkti og Erna Þráins skoraði síðasta mark leiksins og tryggði Haukastelpum sanngjarnan sigur, 29 – 26.

Haukastelpur halda því efsta sæti deildarinnar en þær eru nú með 25 stig. Stjarnan er í öðru sæti með 24 stig en hafa leikið einum leik færra.

Mynd: Ramune að skjóta að marki FH-inga í leiknum í dag – Dagur Brynjólfsson – http://flickr.com/photos/dalli