Í dag sóttu Framstelpur Hauka heim á Ásvelli í N1 deild kvenna. Fyrir leikinn voru Haukastelpur í öðru sæti deildarinnar með 8 stig eftir 5 leiki, tveimur stigum á eftir Stjörnunni sem situr í efsta sæti. Fram var fyrir leikinn í 5. sæti með 4 stig.
Haukastelpur byrjuðu leikinn mun betur og skoruðu þrjú fyrstu mörk leiksins. Eftir stundarfjórðung var staðan 7 – 2, Haukastelpum í vil. Ramune hafði þarna skoruð 5 mörk og Hanna Guðrún 2 mörk og voru þær því einu leikmenn Hauka sem höfðu skorað í leiknum til þessa. Fyrir hálfleik bætti Tatanja Zukovska þó við fjórum mörkum og voru þær því þrjár sem skoruðu í liði Hauka í fyrri hálfleik, Ramune 6, Hanna Guðrún 2 og Tatanja 4.
Í fyrri hálfleik voru Haukastelpur áfram sterkari aðilinn og var munurinn yfirleitt þrjú til fjögur mörk. Eftir um 10 mínútna leik í síðari hálfleik var staðan 17 – 13 og endaði leikurinn svo með Haukasigri 25 – 22.
Markahæst í liði Hauka var Ramune með 11 mörk. Hanna Guðrún og Tatanja skoruðu 5 mörk, Ester skoraði 2 og Nína Björnsdóttir og Þórdís Helgadóttir skoruðu sitt hvort markið.
Hjá Fram var Stella Sigurðardóttir markahæst með 10 mörk, Sara Sigurðardóttir skoraði 3, Þóreyr Rósa Stefánsdóttir, Marthe Sördal og Sigurbjörg Jóhannsdóttir skoruðu tvö mörk hver og þær Paula Nevarilova, Ásta Birna Gunnarsdóttir og Hildur Knútsdóttir skoruðu 1 mark hver.
Maður leiksins var Bryndís Jónsdóttir, markmaður Hauka, en hún varði 26 skot í leiknum.