Það verður sannkallaður stórleikur á Ásvöllum á laugardaginn þegar efstu tvö liðin í deildinni mætast, Haukar og Valur. Leikurinn hefst klukkan 14:00 og fer hann fram á Ásvöllum.
Valsarar eru fyrir leikinn í efsta sæti deildarinnar með 21 stig eftir 15 leiki en Haukar eru stigi á eftir þeim eftir 14 leiki en Haukar eiga leik gegn Víking inni.
Valsarar sem komnir eru í úrslitaleikinn í Eimskipsbikarnum eftir sigur á FH rétt mörðu sigur á Stjörnunni í síðustu umferð 25-24. Í þeim leik fengu þeir Ingvar Árnason og Heimir Örn Árnason leikmenn Vals að líta rauða spjaldið og verða því í leikbanni á laugardaginn.
Hjá Haukum eru flest allir klárir í slaginn þó að Gísli Jón Þórisson og Gunnar Berg Viktorsson hafa verið tæpir undanfarna daga og þá hefur Arnar Jón Agnarsson verið veikur en þeir allir ættu að geta mætt til leiks á laugardaginn.
Við fengum Kára Kristján Kristjánsson línumanninn litla til að svara nokkrum útvöldum spurningum, við spurðum hann fyrst út í stemminguna í hópnum fyrir stórleiknum á laugardaginn ? „ Stemmingin er stórkostleg, við erum búnir að standa okkur hrikalega vel frá áramótum og það verður engin breyting á því á laugardaginn kemur. Ég held samt sem áður að Elías Már (Halldórsson) verði tæpur fyrir laugardaginn þar sem hann er á blæðingum,“ sagði Kári Kristján
„ Við erum því miður ekki að fara spila neinn bikarúrslitaleik þannig að við stillum þessum upp sem slíkum. Það er gríðarlega mikilvægt að klára þennan leik þar sem við eigum einn leiki inni. Það er líka alveg klárt mál að markmið okkar er að vinna deildina,“ sagði Kári Kristján aðspurður að því hvernig Haukaliðið leggi upp með þennan leik. Eins og fyrr segir verða Valsmennirnir, Ingvar Árnason og Heimir Örn Árnason í leikbanni á laugardaginn, við spurðum Kára að því hvort að þetta myndi spila inn í, í leik Vals á laugardaginn ?
„ Já klárlega, en þetta er bara liðssport og það verður að fylla í þau skörð sem þarf að fylla í hverju sinni. Þeir eru með gríðarlega sterkan hóp og þeir eru klárir í þetta.“ Næst spurðum við Kára að því hvort að svona stórleikir ættu ekki heima í sjónvarpinu ? „ Jú að sjálfsögðu, þetta er auðvitað bara orðið fáránlegt. RÚV eru með meistaradeildina í hestaíþróttum í staðin. Ef ekki á að fara sýna frá þessari íþrótt í sjónvarpinu á meðan vel gengur, þá bara lognast þessi íþrótt útaf og verður íþrótt fyrir gamla uppgjafaríþróttamenn svo kallaður bumbubolti “ sagði Kári Kristján Kristjánsson greinilega ekki sáttur með vinnubrögð RÚV.. ef vinnubrögð má kalla.
En það er því lítið annað í boði en að fjölmenna bara á Ásvelli á laugardaginn.