Það styttist óðfluga í leik fyrsta leik Hauka í Domino‘s deild karla en Valsmenn koma í heimsókn á Ásvelli í kvöld. Fróðlegt verður að sjá hvernig þessi tvö lið eiga eftir að plumma sig í deild þeirra bestu en bæði komu upp í úrvalsdeild á ný eftir stutta veru í 1. deildinni.
Mínútu þögn verður fyrir leikinn í kvöld til að heiðra minningu Ólafs Rafnssonar fyrrum forseta Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, forseta FIBA Europe og formanns KKÍ. Ólafur var okkur Haukamönnum kær en hann var bæði leikmaður og þjálfari meistaraflokks karla um árabil á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Við hvetjum því allt Haukafólk til að mæta snemma og heiðra minningu Óla.
Leikurinn hefst kl. 19:15 og verður Gunni mættur á grillið til að matreiða safaríka borgara ofan í liðið frá 18:30. Gunni hefur ákveðið að fá til sín gestagrillara í vetur og munu kempur á borð við Marel Örn Guðlaugsson og Pétur Ingvarsson mæta á grillið í einhverjum leikjum og verða Gunna til halds og trausts. Gunnar Birgir Sandholt mun hins vegar ríða á vaðið og verða fyrsti gestagrillarinn í vetur.
Þjálfarar Haukaliðsins munu kíkja inn á pall ca. 30 mín fyrir leik og fara yfir helstu áherslur leiksins og jafnvel reyna að svara spurningum ef einhverjar eru.
Hægt verður að fylgjast með landsleik Íslands og Kýpur í knattspyrnu á tjaldi á Ásvöllum, þannig að enginn ætti að missa af neinu.