Haukar upp fyrir Hött í töflunni

Haukar unnu góðan sigur á Hetti frá Egilsstöðum á föstudaginn síðastliðin og lyftu sér upp fyrir Hött í töflunni. Haukar sitja nú í 3. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Hamri sem tapaði fyrir FSu. Næstu leikir Hauka eru einmitt gegn FSu og Hamri og því geta strákarnir styrkt stöðu sína enn frekar með góðum úrslitum úr þessum leikjum.

Leikurinn var nokkuð jafn í upphafi en Haukar náðu að brúa bilið í lok fyrsta leikhluta. Leiddu þeir leikinn með átta stigum eftir leikhlutann en Hattarmenn náðu að minnka muninn í tvö stig í upphafi þess annars. Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur og skiptust liðin á að eiga sína góðu og slæmu kafla. Haukar juku muninn upp yfir 10 stigin áður en Höttur svaraði með nokkrum góðum körfum og munaði 10 stigum á liðinum í hálfleik.

Haukar létu þetta forskot sem þeir voru komnir með aldrei af hendi það sem eftir lifði leiks. Rauðir keyrðu muninn upp í 16 stig en Hattarmenn náðu að minnka muninn aftur niður jafnt og þétt og munaði átta stigum á liðunum í upphafi fjórða leikhluta. Emil Barja var í bullandi villuvandræðum og fékk sína fjórðu villu eftir tæpan tveggja mínútna leik í upphafi seinni hálfleiks og sat því á Haukabekknum nær allan leikhlutann.
 
Haukar náðu góðu tempói í leik sinn í þriðja leikhluta en eins og hendi væri veifað hættu þeir að gera það sem hafði virkaði svo vel fyrir þá og Hattarmenn gengu á lagið, skoruðu 7 stig í röð og minnkuðu muninn í átta stig 62-54
 
Haukar gerðu gjörsamlega út um leikinn í fjórða leikhluta og náðu mest 21 stiga forskoti og lyfta sér upp fyrir Hött í töflunni en liðin eru með jafn mörg stig í 3.-4. sæti deildarinnar.
 
Hjá Haukum var Emil Barja atkvæðamestur en hann skellti niður 18 stigum, tók 9 fráköst og varði 3 skot. Nýliði Haukanna, Terrence Watson gerði 17 stig og tók 14 fráköst og Elvar Steinn Traustason smellti niður 12.