Það voru einungis níu leikmenn sem að mættu til leiks hjá Haukum í kvöld þegar að Hafnfirðingar tóku á móti Hamri í IE-deild kvenna. Það kom þó ekki að sök því Haukar náðu að kreista fram sigur eftir frábæra endurkomu gestanna frá Hveragerði.Það var ljóst að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt í upphafi leiks og var vörn í aðal hlutverki hjá báðum liðum. Það gerði það að verkum að fyrri hálfleikur var ekki mikið fyrir augað en Haukar voru þó betri aðilinn í leikhlutanum. Liðin gerðu sig sek um mikið af mistökum og skotin voru ekki að rata rétta leið þó sér í lagi í fyrsta leikhluta.
Haukaliðið pressaði stíft og hafði hún ekki alveg skilað settum tilgangi en í seinni hálfleik fór pressan að virka og munurinn á liðunum fór að verða meiri og meiri. Haukar voru fyrir vikið betri aðilinn í öðrum leikhluta og náðu upp 16 stiga forskoti fyrir hálfleikinn 38-24.
Haukar byrjuðu seinni hálfleikinn betur og komust í 20 stiga mun með því að spila sama leik og í fyrri hálfleik. Hamarsstúlkur voru mjög háðar erlendu leikmönnum sínum þeim Graham og Murphy sem spiluðu vel á þessum kafla og Hamar minnkaði muninn niður í 12 stig. Vörn Hamars var miklu betri og minnkuðu þær muninn niður í sjö stig eftir að Graham negldi niður þriggja stiga körfu frá miðju.
Áfram héldu gestirnir að naga muninn niður með Katherine Graham fremsta í flokki. Þegar rétt rúm fjórar og hálf mínúta voru eftir af leiknum komst Hamar yfir í fyrsta skipti, 61-62, og eftir misheppnaða sókn hjá Haukum juku gestirnir muninn í þrjú stig.
Vörn Hamars var þétt á þessum kafla og virtist ekkert vera í vændum þegar að Hope Elam jafnaði leikinn með þriggja stiga körfu. Hún gerði gott betur og varði skot frá leikmanni Hamars og fór svo yfir og skoraði aðra þriggja stiga körfu og nú voru Haukar aftur komnir yfir. Haukar voru komnir á flug og stal María Lind boltanum af leikmanni Hamars í næstu sókn þeirra. Boltinn rataði á Elam sem freistaði þess að skora þriðju þriggja stiga körfuna en ekki gekk það.
Skot Hamars voru ekki að hitta marks og stigu Haukastúlkur vel út. Liðsmenn Hauka sættu sig við léleg þriggja stiga skot í stað þess að fara að körfunni og auka muninn og í raun það sem varð þeim til happs var að Hamar var ekki að setja sín skot.
Haukar juku muninn í fjögur stig og gestirnir minnkuðu fljótt í tvö. Bjarni Magnússon tók leikhlé og fór yfir málin. Haukar settu niður körfu strax eftir leikhlé og aftur var Elam Hope að verki. Restin af leiknum fór fram á vítalínu Hauka en þar skoruðu þær Hope Elam og Jance Rhoads úr sitthvoru vítinu og leikurinn endaði með sigri Hauka 72-66.
Haukar eru því komnar aftur upp í þriðja sæti deildarinnar með innbyrðis viðureignina á KR sem tapaði fyrir Keflavík og Hamar situr áfram í 7 sæti deildarinnar með 10 stig eða jafn mörg og Fjölnir.
Hjá Haukum var Hope Elam með 17 stig og 9 fráköst og Jance Ann Rhoads var með 15 stig og 10 fráköst.
Mynd: tomasz@karfan.is