Haukar unnu afmælismótið

Meistaraflokkur karla í handbolta vann nokkuð sannfærandi afmælismót Hafnarfjarðarbæjar sem haldið var í íþróttahúsinu við Strandgötu um helgina. Ásamt Haukum var danska liðið Team Nordsjælland, Valur og FH í mótinu.

Haukar mæta í fyrsta leik danska liðinu Team Nordsjælland í fyrsta leik og vannst góður sigur 26-23 eftir að hafa leitt 15-10 í hálfleik.

Arnar Pétursson batt 6:0 vörnina vel saman í þessum leik og stóð Birkir Ívar sig vel í markinu.

Sóknarleikurinn var góður í fyrri hálfleik á meðan Danirnir léku flata 6:0 vörn en þegar þeir skiptu yfir í meiri framliggjandi 4:2 vörn átti Haukaliðið í smá vandræðum með sóknarleikinn.

Liðið lék mjög góðan leik og og vann sannfærandi sigur á danska úrvalsdeildarliðinu.

Í öðrum leik mættu Haukar liði Vals sem hafði tapað stórt fyrir FH-ingum í fyrsta leik. Þeir voru því særðir og ákveðnir í að bæta sinn leik. Haukar byrjuðu vel og komumst í 6-2. Valsmenn komumst þá betur inn í leikinn og var jafnt í hálfleik.

Í seinni hálfleik komust Valsmenn yfir 16-19 þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum. Haukar tóku þá leikhlé og gerðu nokkrar breytingar. Það skilaði sér og sigur vannst 24-20.

Gísli Guðmundsson byrjaði í markinu og varði mjög vel í fyrri hálfleik. Birkir Ívar leysti hann af hólmi síðustu 12 mínúturnar og varði einnig vel. Það má segja að Haukar léku vel fyrstu 10 mínúturnar og síðustu 10 mínúturnar en það nægði til sigurs.

Þess má geta að það vantaði marga lykilleikmenn í lið Vals í þessu móti vegna meiðsla.

Síðasti leikur Hauka var gegn grönnunum í FH. FH-liðið er búið að vinna sér inn keppnisrétt í úrvalsdeildinni að nýju og bíða margir spenntir eftir þessum nágrannaslögum í vetur.

Haukastrákar mættu ákveðnir í leikinn og unnu stórsigur á FH-ingum 36-22 eftir að staðan hafi verið 15-10 í hálfleik. Öfugt við hina tvo leikina þar sem Haukar léku 6:0 vörn þá léku þeir sterka framliggjandi 5:1 vörn í þessum leik.

Birkir Ívar og Gísli vörðu einnig vel í markinu. Leikurinn var tiltölulega jafn í byrjun þó svo að Haukar hefðum smá frumkvæði í markaskoruninni. Þegar leið á fyrri hálfleikinn skildu leiðir og voru yfirburðirnir miklir í seinni hálfleik eins og tölurnar gefa til kynna.

Mynd: Íslandsmeistarar Hauka fara vel af stað