Haukar töpuðu fyrir FH í frábærum handboltaleik með flottri umgjörð

HaukarLið FH og Hauka mættust í gærkvöldi í N1 deild karla. Haukar þurftu nauðsynlega á sigri að halda og vona að HK myndi tapa fyrir Fram í Safamýrinni. Jöfn að stigum, þ.e. Haukar og HK, voru HK með yfirhöndina þar sem þeir höfðu sigrað í tveimur af þremur leikjum liðanna í vetur. Leikurinn gegn FH var hin besta skemmtun. Bæði lið voru mætt til að berjast og gefa allt sitt í leikinn. Fjölmargir áhorfendur, 2300 manns, létu vel í sér heyra og skemmtu sér vel á pöllunum. FH fær hrós fyrir flotta umgjörð en forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson og frú voru heiðursgestir. Niðurstaða leiksins var sú að FH vann með einu marki, 24-23. Vafalítið mætti færa rök fyrir því að jafntefli hefður verið sanngjörn úrslit þar sem bæði lið skipust á að leiða þennan leik en íþróttir og sanngirni fara sannarlega ekki alltaf saman. Á sama tíma og Haukar töpuðu þessum leik gegn FH þá vann lið HK öruggan sigur á Fram í Safamýrinni og tryggði sér 4. sætið í deildinni.

Haukaliðið spilaði vel í gær og virkaði sem ein heild. Oft sáust fín tilþrif og menn voru sannarlega mættir til leiks til að selja sig dýrt. Markaskorun dreifðist vel en sértaklega var ánægjulegt að fylgjast með Sveini Þorgeirssyni sem barðist vel í vörninni að vanda og kom sterkur út í sókninni en þar hefur hann ekki fengið mörg tækifæri í vetur vegna axlarmeiðsla. Heimir Óli var líka sterkur í vörninni og með 100% nýtingu í sókninni þar sem hann gerði 4 glæsileg mörk. Það er morgunljóst að með þessu hugafari og baráttu í vetur hefðu Haukar verið fyrir löngu búnir að tryggja sig í úrslitakeppnina og í raun má segja að tímabil Hauka í vetur minni á tímabil FH í fyrra en þá var það þeirra hlutskipti að verma 5. sætið eftir risjótt gengi í deildinni.

Haukar eiga einn leik eftir en það er heimaleikur gegn Val fimmtudaginn 7. apríl. Sá leikur getur engu breytt um niðurröðun þessara tveggja liða og líklega hefur aldrei í sögu úrslitakeppninnar verið leikið í handboltanum án þess að Haukar né Valur taki þátt, en svona eru stundum íþróttir.

Áfram Haukar!