
Haukar eru á toppi Domino‘s deildar karla eftir fyrstu tvær umferðirnar og hafa í raun byrjað ljómandi vel. Liðið vann stór sigur á Grindvíkingum í fyrstu umferð 97-77 og gerðu svo góða ferð í Stykkishólm í síðustu viku er þeir unnu 84-89 sigur gegn heimamönnum í Snæfelli. Er þetta fyrsti sigur Hauka í 12 ár í Hólminum enda Fjárhúsin virkilega erfiður útivöllur að fara á.
Alex Francis hefur byrjað virkilega vel og er eftir þessa tvo leiki með 25 stig og 17.5 fráköst að meðaltali, tölur sem ekki er hægt að kvarta yfir. Þá leiðir Kári Jónsson Haukaliðið í flestum stoðsendingum með 5.5 að meðaltali en Emil Barja er ekki langt undan með 5.
Á föstudaginn koma Fjölnismenn í heimsókn en liðin mættust síðast í Lengjubikarnum þar sem Fjölnir hafði betur 80-84. Þeir hafa hins vegar ekki farið jafn vel af stað í deildinni og Haukar og eru án stiga eftir viðureignir sínar við Snæfell og Njarðvík.
Haukaliðið verður spennandi í vetur, smekkfullt af hæfileikaríkum heimamönnum sem gaman er að fylgjast með. Það er því ljóst að enginn verður svikinn að koma á Ásvelli og fylgjast með þeim á dansgólfinu og hvetjum við alla Haukamenn til að fjölmenna í Schenker-höllina á föstudaginn.
Grillið verður á sínum stað frá 18:30 og leikurinn hefst stundvíslega kl. 19:15
Áfram Haukar.