Haukar mæta FH í sannkölluðum grannaslag á sunnudaginn í Pepsi-deildinni þar sem að búast má við hörkuleik enda Hafnarfjarðarstoltið í húfi. Leikurinn fer fram á Vodafonevellinum í Reykjavík en þar verða allir leikir Hauka spilaðir í sumar.
Haukar eru fullir sjálfstrausts eftir frábæra byrjun gegn KR-ingum þar sem að þeir náðu að krækja í stig á erfiðum heimavelli KR. Leikurinn endaði 2-2 eftir að Haukar höfðu verið 2-0 undir í hálfleik en svo sýndi liðið alvöru karakter á síðustu andartökum leiksins og náðu að setja tvö mörk en það gerðu þeir Úlfar Hrafn Pálsson og Pétur Ásbjörn Sæmundsson.
Heilmargir stuðningsmenn Hauka létu sjá sig í Vesturbænum síðasta þriðjudag þar sem að stuðningsmannasveit Hauka, eða Hersveitin, lét vel í sér heyra og var engu líkara en að það væri eitt lið í stúkunni.
FH gerði einnig 2-2 jafntefli í sínum fyrsta leik en það var á móti Val á Vodafonevellinum, þetta verður því annar leikurinn í röð í Pepsi-deildinni þar sem að FH þarf að fara á Vodafonevöllinn.
Því ættu allir að láta sjá sig á þessum stóra viðburði og hvetja Haukana áfram enda er það einmitt það sem þeir þurfa; góðan stuðning frá okkur. Leikurinn byrjar kl. 20.00 og að sjálfsögðu eiga allir að mæta í rauðu. Við minnum einnig á að mæta tímanlega á sunnudaginn upp á Vodafonevöll til að losna við troðning og óþarfa tafir.