Haukar unnu öruggan 3-0 sigur á Víðismönnum úr Garði í síðasta æfingaleik liðsins fyrir Pepsi deildina sem hefst á þriðjudaginn næstkomandi. Haukar byrjuðu leikinn af krafti og skoruðu fyrsta markið snemma leiks. Það var hinn síungi Arnar Gunnlaugsson sem skoraði markið eftir góðan undir búning Sam Mantom’s, sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir Hauka í kvöld eftir að hafa komið til Hauka á láni í vikunni.
Það var svo Pétur Ásbjörn Sæmundsson sem skoraði annað mark Haukamanna með góðum skalla eftir góða fyrirgjöf frá Hilmari Trausta. Haukaliðið var mun sterkara í leiknum og fóru oft illa með góð færi. Það var svo Jónmundur Grétarsson sem skoraði þriðja og síðasta mark leiksins eftir að hafa fengið góða sendingu inn fyrir vörnina frá Hilmari Trausta.
Eins og fyrr segir voru Haukarnir sterkari aðilinn í leiknum og gáfu Haukamenn ekki mörg færi á sér. Haukamenn spiluðu vel miðað við aðstæður en spilað var á arfaslökum grasvelli heimamanna.
Sam Mantom spilaði sinn fyrsta leik fyrir Hauka og verður án nokkurs vafa góð viðbót við leikmannahóp Hauka sem er spáð falli hjá öllum fjölmiðlum landsins. Næsti leikur liðsins er gegn KR í Frostaskjóli í 1. umferð Pepsi deildar karla 2010.