„Haukar Haukar við látum aldrei bugast“ segir í einu Haukalaginu og það á svo sannarlega vel við á þessari stundu. Það kom mörgum á óvart að FH skyldi ná 0 – 2 forystu í einvíginu gegn Haukum og margir sem sögðu að Haukaliðið væri orðið sadd o.s.frv. Eftir annan leikinn gerðist ég svo djarfur hér á heimasíðunni okkar að minna fólk á að þetta væri langt frá því að vera búið og að þrátt fyrir að við værum búin að tapa tveimur í röð gegn FH þá hefðu strákarnir unnið 5 í röð þar á undan og þetta væri vel hægt. Nú situr maður sáttur og hugsar þvílík endurkoma og barátta í þessum strákum og þvílíkir stuðningsmenn. Leikurinn í dag var hin besta skemmtun og voru síðustu mínúturnar algjör háspenna. Haukar náðu að komast yfir 28 – 27 þegar nokkrar sekúndur voru eftir með marki frá Jóni Þorbirni eftir ævintýralega flotta sendingu frá Árna Steini. Jón hamraði boltann í netið og FH-ingar tóku strax leikhlé og þá lifðu 3 sekúndur af leiknum en náðu ekki að nýta sér síðustu sóknina þrátt fyrir að vera ótrúlega nálægt því. Það er ekki úr vegi að þakka FH-ingum fyrir skemmtilegt einvígi sem stóð sannarlega undir væntingum. Bæði lið áttu slæma daga en 3 af 5 leikjum liðanna voru hörkuhandboltaleikir sem hefðu getað dottið hvorum megin sem var en okkar menn stóðust pressuna og álagið, til hamingju drengir.
Leikurinn í dag var sannarlega sigur liðsheildarinnar eiginlega Haukaheildarinnar því áhorfendur voru líka frábærir. Markahæstur í leiknum í dag var Árni Steinn Steinþórsson með 8 mörk en Sigurbergur var með 6/2 en allt liðið stóð sig mjög vel í þriðja leiknum í röð þar sem allt var undir, þvílíkur karakter
Mörk Hauka: Árni Steinn 8, Sigurbergur 6/2, Elías Már 4, Einar Pétur 3, Jón Þorbjörn 3, Jónatan Ingi 2, Adam Haukur 1, Tjörvi 1.
Markvarsla: Einar Ólafur 11 (32%), Giedrius 4 (50%).
Við fögnum í kvöld en síðan er það næsta verkefni en það er úrslitaeinvígið við hörkulið Eyjamanna. Þessi lið hafa mæst þrisvar í vetur, einu sinni í Eyjum og tvisvar í Schenkerhöllinni, og Haukar hafa alltaf haft betur. Sigrar í vetur telja ekki núna og strákarnir þurfa að mæta af fullum krafti í þessar viðureignir og við verðum að vera jafn duglega að mæta á pallana og láta í okkur heyra.
Fyrsti leikurinn er núna á mánudaginn 5. maí kl. 19:45 í Schenkerhöllinni.
Leikur 2 er í Eyjum fimmtudaginn 8. maí kl. 19:45
Leikur 3 er í Schenkerhöllinni Laugardaginn 10. maí kl. 16:00
Ef með þarf:
Leikur 4 Eyjum þriðjudaginn 13. maí kl. 19:45
Leikur 5 Schenkerhöllin fimmtudaginn 15. maí kl. 19:45
Upplýsingar um hópferðir til Eyja verða birtar um leið og fyrirkomulagið á þeim liggur ljóst fyrir.
Áfram Haukar!