Á föstudaginn mætast Haukar og HK í 4.flokki karla. Um er að ræða úrslitaleikinn í Íslandsmóti karla. Leikurinn verður spilaður á Kópavogsvelli klukkan 17:00.
Haukar eru líkt og HK taplausir í sumar, en Haukar spiluðu í B-riðli en Kópavogspiltar í A-riðli.
Haukar unnu alla sína leiki, ellefu talsins og enduðu riðilinn með markatöluna 53 – 7. Þeir spiluðu síðan um síðustu helgi á Húsavík í úrslitakeppninni þar sem þeir sigruðu heimamenn í Völsung, Þórsara og Breiðablik. Allir leikirnir enduðu með eins marks sigri Hauka.
HK fóru í gegnum A-riðilin taplausir en gerðu hinsvegar tvö jafntefli gegn Keflavík í sínum fyrsta leik í sumar og síðan gegn Fjölni. Þeir enduðu riðilinn með markatöluna 46 – 12. Þeir spiluðu síðan í úrslitakeppninni líkt og Haukar en leikir HK voru spilaðir hér í bænum. Þeir fóru í gegnum úrslitakeppnina taplausir með markatöluna 10 – 4.
Búist er við hörkuleik á föstudaginn en í liði Hauka eru fullt af ungum og efnilegum drengjum sem vert er að fylgjast með. Við hvetjum því allt Haukafólk að mæta í Kópavoginn á föstudaginn og hvetja strákana til sigurs, en það er ekki á hverjum degi sem Haukar leika til úrslita í Íslandsmótinu í knattspyrnu.