Karlalið Hauka í knattspyrnu mætir Fjölni í kvöld í sannkölluðum toppslag í 1.deildinni. Leikurinn fer fram á Fjölnisvellinum í Grafarvogi og flautað verður til leiks klukkan 19:15. Eftir fjórtán umferðir eru Fjölnismenn í 3.-5.sæti deildarinnar með 24 stig en Haukar eru í efsta sæti með 25 stig ásamt BÍ/Bolungarvík.
Þetta er því gríðarlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið, eins og allir leikir sem eftir eru í deildinni enda er spennan mikil á toppnum og hefur líklega aldrei verið jafn hörð.
Þegar þessi sömu lið mættust fyrr í sumar á heimavelli Hauka höfðu Haukar betur 1-0 með marki frá Hilmari Rafni Emilssyni. Haukar unnu góðan 2-1 sigur á Selfossi í síðustu umferð og Fjölnismenn unnu einnig góðan sigur í síðustu umferð gegn Víking 2-0.
Það verður barist um öll stigin í leiknum í kvöld enda mikið undir. Við hvetjum Haukafólk eindregið til þess að fjölmenna í Grafarvoginn og fylgjast með strákunum á leið sinni að settu markmiði. Leikurinn hefst kl.19:15 eins og fyrr segir.
Allir á völlinn – Áfram Haukar!