Haukar – Hamar í kvöld kl. 19:15

Sylvía hefur verið að spila vel í byrjun mótsHaukastelpurnar í körfunni fá baráttuglatt lið Hamars í heimsókn í kvöld kl. 19:15.

Haukarnir geta með sigri komist á topp Dominos deildarinnar og haldið áfram sigurgöngu sinni. Stelpurnar hafa verið að spila vel í síðustu tveim leikjum eftir að hafa hent sigrinum frá sér í Hólminum í fyrsta leiknum.

Keflavík voru lagðir að velli hér í Schenkerhöllinni í síðasta heimaleik og svo héldu stelpurnar áfram og lögðu Grindavík á útivelli í síðasta leik. Stelpurnar hafa verið að bæta sinn leik stöðugt og hafa verið að spila góða og grimma vörn sem andstæðingar liðsins hafa átt í vandræðum með.

 

Andstæðingar stelpnanna í kvöld koma frá Hveragerði og hafa þær átt í smá basli í byrjun tímabils, en þær hafa tapað öllum sínum þrem leikjum. Hamar missti tvær lykilmanneskjur fyrir tímabilið sem hefur haft mikil áhrif á þeirra leik.

 

Haukarnir verða samt að eiga mjög góðan leik ætli þær sér að ná að landa þriðja sigrinum í röð.

Fjölmennum á völlinn og hvetjum hið unga lið Haukanna til sigurs.