
Adam Haukur var sterkur í gærkvöldi gegn FH og skoraði 8 mörk, jafnmörg og Árni Steinn, en þeir voru markahæstir í leiknum.
Meistaraflokkur karla lék sinn annan leik gegn nágrönnunum úr FH í 8-liða úrslitum úrslitakeppni Olísdeildarinnar í gær, fimmtudag. Haukar unnu fyrri leikinn á heimavelli FH, 29 – 32 eftir hörkuleik, og var því ekki við öðru að búast en að það sama yrði upp á teningnum í Schenkerhöllinni í gærkvöldi.
Jafnt var á með liðunum á öllum tölum í byrjun leiks og skiptust liðin á að komast 1 til 2 mörkum yfir en svo jafnaði hitt liðið metin jafnharðan. FH komst í 4 – 6 en þá skoruðu Haukamenn 3 mörk í röð og breyttu stöðunni í 7 – 6. Þessu frumkvæði héldu Haukar í nokkurn tíma og komust í 11 – 8 þegar um 20 mínútur voru búnar. Þá forystu létu gestirnir sér nægja og jöfnuðu strax í 11 – 11 og síðan var jafnt á öllum tölum út hálfleikinn og staðan að honum loknum hnífjöfn, 16 – 16.
Patrekur þjálfari virtist hafa gefið leikmönnum Hauka góð ráð í leikhléinu og breytti hann meðal annars varnarleiknum úr 6 – 0 í 5 – 1 og það virtist svínvirka því gestirnir áttu í stökustu vandræðum með að skora mörk í seinni hálfleiknum og staðan eftir um 10 mínútna leik var orðin 21 – 18. Áfram héldu FH-ingar að vera í vandræðum í sókninni á meðan Haukamenn voru skynsamir í sínum sóknarleik en á næstu mínútum juku Haukar forskotið og þegar um 8 mínútur lifðu leiks var forskotið orðið 6 mörk, 26-20. Það forskot náðu FH-ingar aldrei að brúa og lönduðu Haukamenn flottum 4 marka sigri 28 – 24 og sæti í undanúrslitum tryggt á meðan FH-ingar eru komnir í sumarfrí.
Það má með sanni segja að aðalskyttur Haukamanna hafi mætt til leiks í gær en Árni Steinn og Adam Haukur skoruðu hvert markið á fætur öðru með þrumuskotum fyrir utan en þeir voru markahæstir Haukamanna með 8 mörk hvor en á eftir þeim kom Einar Pétur með 5, Tjörvi og Janus með 3 og Þröstur með 1/1 mark. Í marki Hauka varði Giedrius 10/1 skot og Grétar Ari 2.
Eins og áður segir eru Haukamenn komnir í undanúrslit þar sem mótherjinn verður gríðarsterkt lið Valsmanna en þeir urðu deildarmeistarar sem þýðir það að þeir eru með heimaleikjaréttinn. Fyrsti leikur liðanna er fimmtudaginn 16. apríl í Vodafonehöllinni að Hlíðarenda kl. 19:30 og hvetjum við allt Haukafólk að mæta og styðja Haukastrákana til sigurs.
Áfram Haukar!