Haukar eru meistarar meistaranna 2014

Hafnarfjarðarmeistarar 2014 en leikið var um síðustu helgi í StrandgötunniStrákarnir í mfl. karla líta vel út fyrir komandi keppnistímabil í Olísdeildinni. Um síðustu helgi sigruðu þeir á sterku Hafnarfjarðarmóti og í kvöld unnu þeir Íslandsmeistara ÍBV í árlegum leik meistara meistaranna en leikið var í Eyjum. Um hörkuleik var að ræða en að loknum fyrri hálfleik var staðan 15 – 12 Eyjamönnum í vil. Að loknum venjulegum leiktíma var jafnt 26 – 26 og því þurfti að framlengja. Jafnt var á öllum tölum í framlengingunni en það voru að lokum okkar menn sem höfðu betur og skoraði Heimir Óli Heimisson sigurmarkið þegar lítið var eftir og lokatölur leiksins 32 – 33. Haukar hafa því lagt Íslandsmeistara ÍBV tvisvar á innan við viku en þeir höfðu einnig betur gegn þeim í áðurnefndu Hafnarfjarðarmóti, 30 – 25.

Nú tekur við undirbúningur fyrir næsta leik sem er Evrópuleikur gegn rússneska liðinu Dinamo Astrakhan og fer hann fram á Ásvöllum n.k. sunnudag kl. 17:00. Mikilvægt er að við mætum á pallana og látum vel í okkur heyra. Síðari leikurinn við rússneska liðið fer fram ytra þann 14. þessa mánaðar.

Áfram Haukar!