Haukar deildarmeistarar í Olísdeild karla 2014

Glaðir og reifir Haukamenn að fagna því að hafa unnið OlísdeildinaÍ kvöld var leikin næst síðasta umferð Olísdeildar karla og fengu Haukar lið Akureyrar í heimsókn. Leikurinn hafði mikla þýðingu fyrir bæði lið en með sigri eða jafntefli gátu Haukar tryggt sér deildarmeistaratitilinn í Olísdeildinni og Akureyri vantaði sárlega stig til að hífa sig upp úr 7. sæti deildarinnar og freista þess að losna við umspil um falll í 1. deild. Leikurinn bar þess merki að mikið var undir. Leikmönn beggja liða börðust vel í vörninni og báðum liðum gekk illa að skora í sókninni. Fyrsta mark leiksins kom ekki fyrr en eftir rúmar 8 mínútur og þegar 16. mínútur voru liðnar var staðan 2 – 5. En Haukar náðu aðeins að vakna sóknarlega og snúa þessari stöðu sér í vil en þegar gengið var til hálfleiks var staðan 11 – 10. Áhorfendur vonuðust eftir betri sóknarbolta í seinni hálfleik en sú varð ekki raunin. Bæði lið héldu áfram að sýna frábæra baráttu í vörninni en áttu í mesta basli með að skora.

Markvörður Akureyringa, Jovan Kukobat, átti líka mjög góðan leik og varði hvað eftir annað úr dauðafærum hjá Haukum á meðan markmenn Hauka fundu ekki taktinn, í raun er ótrúlegt hvað Akureyringum gekk illa að skora miðað við markvörslu Hauka sem voru aðeins 4 boltar í öllum leiknum á móti 18 hjá gestunum. Haukar virtust vera að ná taki á leiknum þegar um það bil 10. mínútur lifðu leiks þegar staðan var 19 – 16. Akueyringar neituðu að gefast upp og náðu að jafna leikinn og komast yfir 20 – 21 þegar 3 mínútur voru eftir. Á þessum síðustu mínútum var mikill darraðadans og hvorugu liðinu gekk að skora alveg þar til í síðustu sókn Hauka þegar Elías Már Halldórsson gerði sér lítið fyrir og skoraði jöfnunarmarkið með flottu skoti fyrir utan þegar aðeins 8 sekúndur voru eftir. Akureyringum tókst ekki að nýta síðustu sókn sína og niðurstaðan því jafntefli 21 – 21.

Ótrúlegur baráttuleikur þar sem jafntefli voru sanngjörn úrslit. Þetta jafntefli dugði Haukum því að þrátt fyrir að ÍBV hafði unnið Val, og gætu náð Haukum að stigum í lokaumferðinni, þá voru Haukar öruggir þar sem þeir höfðu unnið ÍBV í fyrri tveimur leikjunum í deildinni. 

Þetta er þriðja árið í röð sem Haukar verða deildarmeistarar og sjötta skiptið á 7 árum sem er magnaður árangur.

Til hamingju strákar og allt Haukafólk, þetta er frábær uppskera hjá flottu liði. Nú eru þessir strákar búnir að vinna þá bikara sem hafa verið í boði þennan veturinn og aðeins sá stóri, Íslandsmeistaratitillinn, er eftir sem við ætlum okkur sjálfsögðu að landa líka. Í undanúrslitum munu Haukar mæta því liði sem endar í 4. sæti og eins og staðan er núna þá geta það verið 4 lið Valur, Fram, FH og ÍR. Hver það verður ræðst í síðustu umferðinni sem leikinn verður á mánudaginn kemur, 14. apríl. Í þeirri umferð mæta Haukar ÍBV í Schenkerhöllinni og hefst leikurinn kl. 19:30.

Áfram Haukar!