Haukar B eru komnir í úrslit á Íslandsmeistaramóti B- liða í körfuknattleik eftir frábæran sigur á B- liði Keflavíkur í gær. Haukar B hafa verið á miklu flugi og eru menn staðráðnir í því að koma bikarnum heim en B- liðið varð síðast Íslandsmeistari árið 2005.
Mótherjar Hauka verða KR – B en þeir lögðu lið Stjörnunnar með sex stigum í Ásgarði á laugardaginn og verður þetta í þriðja skiptið sem að Haukar og KR mætast í úrslitum á síðustu sjö árum.
Keflvíkingar komu ákveðnir til leiks í gær en náðu þó aldrei neinu flugi. Haukar juku muninn jafnt og þétt og munaði 10 stigum í hálfleik 43-33. Aftur komu Keflvíkingar ákveðnir til leiks í upphafi seinni hálfleiks og minnkuðu muninn í 6 stig. Kom þá flottur kafli hjá Haukum sem keyrðu upp muninn og náðu mest 21 stiga forystu.
Að endingu sigruðu Haukar með 16 stigum, 89-73 og leika því til úrslita gegn KR á laugardaginn næstkomandi í Íþróttahúsi Kennaraháskólans og hefst leikurinn kl. 15:15.