Sunnudaginn 28. júní síðastliðinn lögðu 4. flokkur kvenna og karla land undir fót og héldu til Gautaborgar í Svíþjóð til þess að taka þátt í Partille Cup handboltamótinu. Þetta átti eftir að vera eftirminnileg ferð fyrir alla sem tóku þátt en samtals voru 44 ferðalangar í hópnum sem samanstóð af leikmönnum, þjálfurum og fararstjórum. Þá voru fjölmargir foreldrar á svæðinu að fylgjast með leikjum liðanna. Gist var í skóla stutt frá miðbæ Gautaborgar og þurfti 3 stofur undir hópinn. Partille Cup er stærsta handboltamót sem haldið er ár hvert fyrir börn og unglinga. Þátttakendur eru á aldrinum 10-20 ára og er keppt í hverjum aldursflokki karla og kvenna upp í 16 ára aldur en svo eru 18 og 20 ára flokkar.
Ferðin hófst á heimsókn í Skara Sommerland sem er vatnagarður og tívolí en þar var mikil gleði þrátt fyrir að sólin hafi ekki látið mikið sjá sig. Þá var opnunarhátíð mótsins glæsileg og var gaman að sjá fjölda þjóða sem saman var komin. Liseberg tívolíð var heimsótt og voru sporvagnar Gautaborgar óspart notaðir við að heimsækja miðbæinn.
Það var svo á þriðjudeginum sem keppni hófst í sól og blíðu en mótið er haldið utandyra og var spilað á gervigrasvöllum. Veðurblíðan lét svo ekki á sér standa og var 25-30 °C hiti og sól það sem eftir lifði ferðarinnar. Riðlakeppni spilaðist í 3 daga fram á fimmtudag og fengu liðin mótherja frá hinum ýmsu löndum, m.a. frá hinum Norðurlöndunum, Þýskalandi, Brasilíu og Zimbabwe! Það tók á að spila við nýjar aðstæður og mikinn hita og þurfti ósjaldan að fylla á vatnsbrúsana en allir skemmtu sér vel. Eftir það tók við útsláttarkeppni í A og B úrslitum en lengst komust Haukastrákar fæddir 1999 í A úrslitum. Þeir komust í 8 liða úrslit en það voru um 80 lið í þeirra aldursflokki. Annars stóðu allir flokkar sig prýðilega og voru krakkarnir félagi sínu til sóma. Það er klárt mál að Haukar eiga leikmenn í hæsta gæðaflokki.
Að lokum má segja gildi ferða sem þessarar hafi enn og aftur sannað gildi sitt því óhætt er að segja að krakkarnir hafi styrkt tengslin sín á milli, við félagið og íþróttina. Áfram Haukar!
Þorkell Magnússon