Haukar eru úr leik í Subwaybikarnum eftir 15 stiga tap gegn Njarðvík, 77-62, en sýndu í þessum leik að þeir eru sýnd veiði en ekki gefin. Haukar náðu að stríða Njarðvíkingum all verulega og sýna lokatölurnar óraunhæfa mynd af þróun leiksins en Njarðvík náði að aðeins að keyra upp muninn þegar þrjár mínútur voru eftir af síðasta leikhlutanum.
Leikurinn var jafn nánast allan leikinn þrátt fyrir að Njarðvíkingar hafi leitt allan tíman. Haukar voru aldrei meira en tveimur til sjö stigum frá þeim og oft hefðu þeir getað jafnað leikinn en heppnin var ekki með þeim í kvöld.
Njarðvík komst mest í 11 stiga forskot og voru yfir með 9 í hálfleik, 38-29, en Haukar minnkuðu muninn jafnt og þétt eftir leikhléið og munaði aðeins tveimur stigum á liðunum um miðjan þriðja leikhluta. Njarðvík leiddi með þremur stigum í eftir þriðja leikhluta, 53-50, og var því búist við hörku endaspretti vonir Hauka til að komast í undanúrslit voru miklar.
Eins og áður hefur komið fram keyrðu Njarðvíkingar upp muninn á síðustu þremur mínútunum en munurinn var aðeins 5 stig á liðunum fyrir það. Haukar misstu boltann trekk í trekk með lélegum sendingum og má setja spurningarmerki við sum skot leikmanna Hauka á þessum kafla.
Hvað sem því líður er þetta besti árangur Hauka í bikarkeppni KKÍ í langan tíma og gefur bara góð fyrirheit um það sem koma skal.
Stigahæstur Hauka var oftar sem áður Sveinn Ómar Sveinsson með 20 stig og 7 fráköst. Lúðvík Bjarnason var með 11 stig og 5 fráköst og George Byrd setti niður 10 stig og reif 9 fráköst.
Mynd: Marel og félagar eru úr leik í bikarnum – stefan@haukar.is