Haukar í höllinni – Upphitunin heldur áfram

Árni SteinnÍ tilefni af því að úrslitin í Coca Cola bikarnum fara fram um helgina þá hefur heimasíðan sett sig við samband við leikmenn og þjálfara og tekið þá í stutt spjall. Næsti viðmælandi er Árni Steinn Steinþórsson en hann hefur leikið einkar vel í vetur og var meðal annars í æfingarhóp landsliðsins fyrir Evrópumótið í janúar.

Nú er langt gengið á tímabilið hjá ykkur og staðan er 1. sæti í deildinni, Deildarbikarmeistrar og Final 4 í bikarnum. Ertu sáttur með frammistöðu liðsins og er hún í takti við þær væntingar sem þið höfðuð fyrir tímabilið?
Auðvitað erum við ánægðir með stöðuna eins og hún er í dag enda búnir að spila vel mest megnis í vetur en hlutirnir eru líka fljótir að breytast og við þurfum að halda einbeitingu ef við ætlum að ná markmiðum okkar.

Nú töpuðuð þið síðasta leik í deildinni og þetta var fyrsta tap ykkar í langan tíma ertu ekki hræddum um að tapi slá ykkur út af laginu?
Nei nei. Einhverjir gætu sjálfsagt farið að búa til krísu og eitthvað en ég held að þetta sé bara til að skerpa á okkur og ég hef fundið það á æfingum eftir leikinn að menn eru staðráðnir í að láta þetta ekki gerast aftur.

Núna eru úrslitin í bikarnum framundan hvernig leggst það í þig og restina af Haukaliðinu?
Þetta leggst bara vel í menn og mikil tilhlökkun. Á örugglega eftir að vera frábær stemning á föstudagskvöldið enda held ég að Haukar – FH á föstudagskvöldi kl.  20:00 í Laugardalshöll sé eitthvað sem sé ekki hægt að missa af. Vonandi verður þetta eftirminnileg helgi.

Leikurinn sem er framundan í undanúrslitum er Hafnarfjarðarslagur gegn FH og er það 4. viðureign liðanna á tímabilinu. Hvernig er þín upplifun á þessum Hafnarfjarðarslögum?
Þetta er núna mitt þriðja tímabil í Haukunum og eru þessir leikir yfirleitt það sem stendur upp úr svona í minningunni. Það er alveg innprentað í mann frá því maður mætir á fyrstu æfingu hversu mikilvægt það sé að vinna þessa leiki, bæði fyrir leikmenn og ekki síst stuðningsmennina.

Hvernig leikur verður þetta? Má búast við að þessi leikur verði eins og deildarleikir liðanna eða er það öðruvísi þegar bikarúrslit eru í húfi?
Það skiptir nákvæmlega engu máli hvað síðustu leikir eða staða í deildinni segir þegar í svona leik er komið. Þegar allt kemur til alls þá verður það gamla klisjan um að dagsformið og rétt spennustig sem á eftir að hafa úrslitaáhrifin.

Nú eruð þið í efsta sæti í deildinni og búnir að vinna alla leiki gegn FH í vetur. Setur það ekki meiri pressu á ykkur?
Nei nei. Það er alltaf pressa á að vinna alla leiki hjá Haukunum alveg sama á móti hverjum það er eða í hvaða keppni það er.

Nú hafa Haukar unnið bikarinn 6 sinnum og þar á meðal þú. Er sú reynsla ekki mikilvæg þegar að út í svona leik er komið?
Jú klárlega. Við höfum unnið þessa keppni áður og við vitum hversu góð tilfinning það er að lyfta dollunni, tilfinning sem hvetur okkur enn frekar áfram.

Eitthvað að lokum sem þú vilt koma á framfæri?
Bara hvetja sem flesta til að mæta, ykkar stuðningur skiptir máli.

Karlaliðið mætir FH á föstudaginn kl. 20:00 í undanúrslitum og stelpurnar mæta Val á fimmtudaginn einnig kl. 20:00 en báðir leikirnir fara fram í Laugardalshöll. Upphitun hefst á Ásvöllum báða daga kl. 18:00 og rútur fara síðan í Höllinn kl. 19:00 og taka einnig fólk til baka. Mætum öll í rauðu og styðjum Hauka til sigurs í bikarnum. Áfram Haukar!