Haukar áfram á toppnum

HaukarHaukar eru áfram á toppnum í N1-deild karla eftir leiki gærkvöldsins. Okkar menn sóttu Frammara heim í Safamýrina og höfðu sigur 23-17 í leik sem verður seint minnst í sögubókunum fyrir fagran handbolta. Það hins vegar skiptir ekki nokkru máli því þessi tvö stig sem náðust telja alveg jafn mikið í lok tímabils og önnur stig.

Staðan í hálfleik var 9-6 og verður það að teljast mjög gott að fá einungis á sig sex mörk í heilum hálfleik, raunar mátti segja að á þessum tímapunkti hafi Haukaliðið einungis fengið á sig 10 mörk á 60 mín ef talinn er seinni hálfleikur í bikarleiknum gegn FH sl. sunnudag líka þar sem FH skoraði einungis fjögur mörk. Flottur varnarleikur!

En aftur að leiknum gegn Fram, síðari hálfleikur var mjög keimlíkur þeim fyrri, aragrúi sóknarmistaka en Haukastrákar þó töluvert betri og fór svo að leiknum lauk með 23-17 sigri okkar manna eins og áður sagði.

Eftir leikinn eru Haukar áfram á toppi deildarinnar, nú með 22 stig en FH fylgir fast á eftir með 21 stig í næstu sætum koma HK með 19 stig og Akureyri með 18 stig. 

Markahæstir í Haukaliðinu voru þeir Freyr Brynjarsson með 6 mörk og Gylfi Gylfason með 4 mörk. Aron Rafn Eðvarðsson varði 15 skot.