Haukar á góðu róli

 

Haukar hafa farið vel af stað í 1. deildinni eftir áramót og sigrað alla þá fjóra leiki sem liðið hefur spilað. Haukar unnu öruggan sigur á Hetti og FSu í fyrstu tveimur leikjunum og unnu svo sex stiga sigur á Hamri í baráttunni um annað sætið. Hamar vann Haukaliðið fyrir áramót eining með sex stigum og því mun það ráðast í lok móts hvort liðið raðast ofar í töflu séu þau jöfn að stigum.

Haukar mættu Þór Akureyri síðasta föstudag og má segja að Haukar hafi komið vel undirbúnir í þann leik. Haukar urðu fyrsta liðið til að sigra Þór á heimavelli í vetur og gerðu það með stæl. Leikurinn endaði með 48 stiga sigri Hauka, 60-108, þar sem að Terrence Watson var stigahæstur með 27 stig og 14 fráköst. Emil Barja bætti við 20 stigum og Elvar Steinn og Helgi Björn voru með sitthvor 12 stigin.

Næsta föstudag mæta Haukar ÍA frá Akranesi en þeir eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni á meðan Haukar setja stefnuna á sæti meðal þeirra bestu í úrvalsdeildinni. Þar mætir Terrence Watson sínum gömlu félögum en hann lék með Skagaliðinu á síðustu leiktíð.

Leikur Hauka og ÍA hefst kl. 19:15, föstudaginn 8. febrúar.