Haukar-Þór mfl.karla

Strákarnir okkar mættu þreyttir til leiks á Ásvöllum í gær í síðasta leik sínum á árinu er þeir tóku á móti Þór frá Akureyri. Þeir voru á hælunum nær allan leikinn sem endaði með tapi 28-29.

Gestirnir skoruðu fyrsta markið en síðan voru Haukar yfir 4-2 og 5-3. Eftir það var jafnt á öllum tölum í 9-9 en þá náðu Þórsarar tveggja marka forskoti 9-11 og voru yfir það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og var staðan 13-14 þegar flautað var til leikhlés.

Í síðari hálfleik voru það aftur gestirnir sem skoruðu fyrsta markið en strákarnir okkar jöfnuðu 16-16 og komust yfir 18-16. Slæmt var það búið að vera í fyrri hálfleik en versnaði enn og gerði Þór næstu 5 mörk og breytti stöðunni í 18-21. Okkar menn tóku á sig smá rögg og jöfnuðu 23-23. Eftir það skiptust liðin á að hafa forystu og var jafnt 28-28 rétt fyrir leikslok en Þór skoraði síðan úr víti á síðustu sek. leiksins.

Lítið sást af varnarleik hjá okkar mönnum og var Birkir Ívar ekki öfundsverður að standa fyrir aftan leka vörnina en hann átti fínan leik og varði vel á þriðja tug skota.

Auðvitað eru menn ósáttir við leik strákanna og að þeir virkuðu hálf áhugalausir í leiknum. Félagið gerir jú miklar kröfur. En það er óþarfi að hafa einhverjar áhyggjur af gengi strákanna, þeir eru jú ennþá á toppnum í riðlinum. Við megum heldur ekki gleyma álaginu sem verið hefur á þeim í vetur, tíu Evrópuleikir á tæpum þremur mánuðum. Og sem dæmi spiluðu þeir sjö leiki síðasta rúma hálfan mánuðinn, þarf af tvo erfiða Evrópuleiki í lýjandi 5 daga ferðalagi. Þrátt fyrir þetta eru þeir búnir með sitt deildarprógram viku fyrr en öll önnur lið í riðlinum !!! Skrítið.