Í kvöld fór fram fyrsti leikur Hauka og FH í 8 liða úrslitum Olísdeildar karla en leikið var í Kaplakrika. Jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleik en í stöðunni 8-8, á 20. mínútu leiksins, kom góður kafli hjá okkar mönnum og þeir breyttu stöðunni í 8-12. Þeir juku svo forskot sitt í 11-17 sem voru hálfleikstölur. Í síðari hálfleik byrjuðu FH ingar að spila framliggjandi 3-3 vörn sem ruglaði okkar menn aðeins í ríminu en þeir héldu þó áfram að bæta við forskot sitt en mest náðu Haukar 8 marka forskoti á 36. mínútu, 12-20. Þá tók við skrýtinn kafli þar sem Haukar voru 3 sinnum í röð einum færri og FH ingar gengu á lagið og minnkuðu muninn án þess að ná að vinna upp forskot Hauka. Á síðustu 10 mínútum leiksins náðu heimamenn að minnka forskotið niður í 2 mörk og svo niður í 1 þegar lítið var eftir, 29-30. En þá vaknaði Giedrius aftur í markinu, en hann var mjög sterkur í fyrri hálfleik, og varði tvisvar á mikilvægum augnarblikum og okkar menn svöruðu með marki sem gaf lokaniðurstöðuna 29-32 og góður Haukasigur staðreynd. Liðsheildin skóp þennan sigur en markahæstur var Árni Steinn, sem líklega lék sinn besta leik í vetur, en alls urðu mörkin 9 hjá kappanum. Tjörvi og Janus Daði áttu einnig flotta spretti en aftur þá var það liðsheildin sem var allsráðandi og menn stigu upp þegar aðrir fundu sig ekki, sem er merki um góða breidd og flotta liðsheild.
Fín stemning var á leiknum og lét Haukafólk, að vanda, vel í sér heyra. Nú fyllum við Ásvelli á fimmtudaginn en með sigri í þeim leik geta okkar menn tryggt sér sæti í undanúrslitum og munu þeir vafalítið mæta fullir sjálfstrausts og baráttu í þann leik sem hefst í Schenkerhöllinni kl. 19:30.
Áfram Haukar!