Haukamenn í útlöndum: Ásgeir Örn Hallgrímsson

Ásgeir Örn Hallgrímsson, leikmaður GOG-Svendborg í DanmörkuÁsgeir Örn Hallgrímsson er að leika sitt annað tímabil með GOG-Svendborg í dönsku Jack&Jones úrvalsdeildinni í handknattleik. GOG-Svendborg er eitt allra sigursælasta lið Danmerkur og kemur frá litlum bæ, Gudme, á Suður-Fjóni.

Fyrir nokkrum árum sameinaðist GOG liðinu Svendborg frá samnefndum bæ þaðan sem stærsta fyrirtækjasamsteypa Danmerkur A.P. Möller á rætur sínar að rekja. Ásgeir leikur undir stjórn landsliðsþjálfarans Guðmundar Þ. Guðmundssonar sem er að þreyja frumraun sína sem þjálfari í Danmörku.

Ásgeir var meiddur lengi framan af hausti og lék sinn fyrsta leik á tímabilinu fyrir mánuði síðan þegar hann skoraði sigurmark GOG gegn Bjerringbro-Silkeborg. GOG er sem stendur í fimmta sæti deildarinnar en gengi þessa stórveldis í dönskum handknattleiks hefur verið nokkuð brokkgengt að undanförnu.

Í kjölfar sigursins gegn Bjerringbro tapaði liðið óvænt gegn Århus GF sem hefur verið í miklum vandræðum það sem af er tímabils en reis svo heldur betur upp og kjöldró Kolding en leikir GOG og Kolding skipa ætíð sérstakan sess í Danmörku enda hafa þessi tvö lið skipt með sér meistaratitlunum undanfarin fjölmörg ár. Ásgeir og félagar máttu svo þola tap á Norður-Jótlandi en þegar þeir sóttu AaB heim á erfiðum útivelli í Álaborg. Í kvöld tekur GOG á móti FCK frá Kaupmannahöfn en sigurvegari í þeim leik kemst í þriðja sæti deildarinnar á eftir Bjerringbro-Silkeborg og Kolding. Með liði FCK leikur sem kunnugt er Arnór Atlason.

Ásgeir hefur kunnað vel við sig í Danmörku enda hentar danska deildin honum afskaplega vel en þar er spilaður hraður, teknískur og skemmtilegur handbolti enda hafa Danir á ótrúlega breiðri sveit handknattleiksmanna á að skipa. GOG hefur líkt og svo mörg önnur handknattleikslið í Evrópu glímt við veruleg fjárhagsvandræði og þurfti liðið m.a. að selja Snorra Stein Guðjónsson til Þýskalands í upphafi tímabilsins. Við óskum Ásgeiri og félögum góðs gengis í baráttunni í vetur.

Kynning á Ásgeiri á heimasíðu GOG