Haukamenn ætla að fjölmenna á leikinn gegn Þrótti

Stuðningsmenn Hauka ætla að fjölmenna á gervigrasið í Laugardal á morgun kl. 14.00 en þá mun meistaraflokkur karla í fótbolta heimsækja Þrótt í fyrsta leik okkar manna í Íslandsmótinu.

Lið okkar Hauka-manna er nokkuð breytt frá því á síðasta tímabili en nýir menn, þó gamlir Hauka-menn, eru Ásgeir Ingólfs., Hilmar Geir og Hilmar Emils.  Aðrir nýir menn eru Hafþór Þrastarson, miðvörður, miðjumennirnir Andri Steinn Birgisson og Hafsteinn Briem, bakvörðurinn Viktor Smári, sem á reyndar rætur að rekja í Hauka, Sigmar markvörður, Arnar Aðalsgeirs. frá AGF og Helgi Valur.

Við teljum okkur vera með sterkan og skemmtilegan hóp fyrir átökin í sumar og stemmningin í hópnum er mjög góð – Við Haukamenn ætlum okkur stóra hluti í sumar!

Ásgeir Ingólfs. hefur eftirfarandi að segja við stuðningsmenn Hauka: ,,Ég og allir leikmenn liðsins biðlum til stuðningsmanna að styðja við bakið á okkur í sumar. Það hefur margsannað sig að því fleiri sem mæta, þeim mun skemmtilegri verða leikirnir. Menn vilja alltaf sýna sitt rétta andlit og það er ekkert leiðinlegra en að gera það fyrir tómri stúku! MÆTIÐ Á VÖLLINN Í SUMAR OG GERUM ÞETTA Í SAMEININGU AÐ OKKAR SUMRI! Áfram HAUKAR!“

Allir Hauka-menn geta tekið undir orð Ásgeirs og nú er um að gera að hvetja strákana í sumar!

Næsti leikur eftir leikinn gegn Þrótti er gegn Víking Reykjavík í bikarnum og verður hann mánudaginn 13. maí í Víkinni.  Fyrsti heimaleikur Hauka í deildinni er gegn Grindavík föstudaginn 17. maí kl. 19:15 og þá ætlum við að grilla borgara, nánar auglýst síðar.