Í gærkvöldi fór fram í Íþróttahúsinu við Strandgötu Íþróttahátíð Hafnarfjarðar fyrir árið 2009. Þetta er árlegur viðburður þar sem Íslandsmeistarar íþróttafélaga bæjarins fá viðurkenningu og einstaka íþróttamenn eru verðlaunaðir fyrir góðan árangur á árinu. Hápunkturinn er þó alltaf þegar íþróttamaður og íþróttakona Hafnarfjarðar er valinn.Í ár var það handboltakonan Hanna Guðrún Stefánsdóttir, leikmaður Hauka, sem var valin íþróttakona Hafnarfjarðar og Davíð Þór Viðarsson, knattspyrnumaður úr FH, íþróttamaður Hafnarfjarðar.
Á heimasíðu Hafnarfjarðar kemur fram að ástæða þess að Hanna Guðrún varð fyrir valin sé að hún varð m.a. deildarmeistari 2009 með meistaraflokki Hauka í handknattleik kvenna þar sem hún var fyrirliði. Hún var valin besti leikmaður Íslandsmótsins í vor og var jafnfram langmarkahæst. Einnig var hún lykilleikmaður í kvennalandsliðinu. Hanna Guðrún er með árangri sínum og framgöngu mjög góð fyrir mynd ungra íþróttakvenna.
Við óskum Hönnu Guðrúnu til hamingju með þetta.