Halldór Jón Garðarsson nýr formaður knattspyrnudeildar Hauka

Halldór Jón Garðarsson hefur tekið við sem formaður knattspyrnudeildar Hauka en hann hefur undanfarin ár setið í stjórn deildarinnar og m.a. verið formaður meistaraflokksráðs kvenna síðustu ár og þar á undan í meistaraflokksráði karla.

  • Góðir og reynslumiklir þjálfarar í barna- og unglingastarfinu
  • Það er ekki alltaf logn á Ásvöllum og við þurfum knatthús fyrir börnin
  • Meistaraflokkarnir þurfa þinn stuðning

Halldór segir að spennandi og krefjandi verkefni séu framundan í knattspyrnudeild Hauka. ,,Barna- og unglingastarfið er að ganga mjög vel enda leggjum við mikla áherslu á að vera með góða og reynslumikla þjálfara auk þess að gefa ungu Haukafólki tækifæri á að þjálfa yngri iðkendur. Fjöldi iðkenda hefur farið vaxandi síðustu tvö ár en ljóst er að aðstaðan er sprungin. Þá skal viðurkennast að það er ekki alltaf logn á Ásvöllum þannig að við þurfum skjól svo við getum eflt okkar þjálfun enn frekar og verið samkeppnishæfari. Það er því afar mikilvægt að knatthús rísi á Ásvöllum fyrr en síðar og vonumst við til að það geti orðið að veruleika eigi síðar en snemma árs 2021.“

Varðandi meistaraflokka félagsins segir Halldór að tímabilið hafi ekki farið eins og stefnt var að hjá báðum liðum. ,,Byrjunin hjá meistaraflokki kvenna í sumar var alls ekki góð en með góðum úrslitum upp á síðkastið eru stelpurnar komnar í 4. sæti deildinnar og við stefnum á að klára tímabilið með sóma. Varðandi strákana þá erum við í baráttu um að halda okkar sæti í Inkasso deildinni og þeir leikir sem eru eftir eru algjörir úrslitaleikir. Strákarnir náðu góðum úrslitum gegn Þór á Akureyri í gærkvöldi og nú er að fylgja því enn betur eftir í komandi leikjum. Ég hvet því allt Hauka fólk til fjölmenna á Ásvelli og styðja bæði stelpurnar og strákana til sigurs!“

Aðrir í stjórn knattspyrnudeildar eru Jón Björn Skúlason, varaformaður, Karl Guðmundsson, gjaldkeri, Helga Helgadóttir, ritari, Jón Erlendsson, meðstjórnandi og formaður meistaraflokksráðs karla, Þórdís Rúriksdóttir, meðstjórnandi og formaður barna- og unglingaráðs kvenna, Brynjar Viggósson, meðstjórnandi og formaður barna- og unglingaráðs karla, Guðmundur Ólafsson, meðstjórnandi, Jóhann Unnar Sigurðsson, meðstjórnandi, Ellert Ingi Hafsteinsson, meðstjórnandi  og Þórarinn Jónas Ásgeirsson, meðstjórnandi.

Halldór Jón Garðarsson