Handknattleiksdeild Hauka og Halldór Ingólfsson hafa náð samkomulagi um að Halldór taki við þjálfun Íslandsmeistaraliðs Hauka eftir að yfirstandandi tímabili lýkur í vor. Samningurinn er til þriggja ára.
Halldór Ingólfsson var leikmaður og fyrirliði Hauka um árabil og því öllum hnútum kunnugur í félaginu. Halldór hefur reynslu af þjálfun bæði hér innanlands og erlendis og er vel til þess fallinn að taka við stjórnartaumunum hjá meistaraflokki karla.
Haukar ætla áfram að vera í fararbroddi í íslenskum handknattleik og er það því mikið gleðiefni fyrir félagið að geta boðið Halldór Ingólfsson velkomin heim til að leiða það verkefni. Halldór tekur við góðu búi og miklum og góðum efnivið til að vinna úr.