Það er sannkallaður stórleikur í 8 liða úrslitum Eimskipsbikar karla í dag þegar Hafnarfjarðarliðin Haukar og FH mætast í Kaplakrika kl. 16. Haukastrákarnir eiga harma að hefna þar sem þeir svarthvítu unnu bikarslaginn fyrir ári í eftirminnilegum og dramatískum leik. Búast má við fjölmenni á áhorfendapöllunum og frábærri stemmningu. Haukafólk er hvatt til að mæta í rauðu.
Haukar urðu síðast bikarmeistarar árið 2002 en það var í þriðja sinn sem liðið vann titilinn, fyrri skiptin voru árið 1997 og 2001. Frá árinu 2002 hefur liðið unnið fimm Íslandsmeistaratitla og fimm deildarmeistaratitla án þess að fara alla leið í bikarnum. Þeir svarthvítu hafa ekki unnið bikarinn í fimmtán ár en liðið hampaði titlinum árin 1992 og 1994. Það er því ljóst að hungrið er til staðar hjá leikmönnum beggja liða og eins og alla jafna í bikarslag þá vinnur það lið sem berst meira fyrir hlutunum.