Hörkuleikur í Kaplakrika endaði með heimasigri

HaukarFHingar sigruðu í kvöld lið Hauka í N1 deild karla í handbolta 29 – 28. Sigurinn var síður en svo sanngjarn en Haukamenn voru yfir nánast allan leikinn, eða þar til rétt eftir miðjan síðari hálfleik, auk þess sem Haukamönnum tókst að jafna metin þegar rétt tæpar 10 sekúndur lifðu leiks en dómarar leiksins dæmdu skref á Andra Stefan, eitthvað sem þeir einir sáu. Haukar voru yfir í hálfleik 17 – 13.

 

Það voru Haukamenn sem skoruðu fyrsta mark leiksins og leiddu leikinn allan fyrri hálfleikinn. Mest komust þeir í fimm marka forskot, 13 – 8. FHingar náðu að minnka muninn fyrir lok fyrri hálfleiks og var staðan eins og áður segir 17 – 13 í hálfleik.

 

Í byrjun síðari hálfleiks hélt sama spenna áfram. Liðin skiptust á að skora en Haukamenn leiddu fyrri hluta hálfleiksins. Þegar rúmar 7 mínútur voru liðnar af hálfleiknum misstu Haukar mann af velli fyrir brot. FHingar skoruðu og Birkir Ívar kastaði boltanum fram á miðjuna. Enginn var þar til að grípa boltann og fór boltinn því yfir á vallarhelming FH. Dómarar leiksins lyftu upp höndinni, til marks um leiktöf, en Haukar fengu aukakast. Leikmenn Hauka vildu að leikmenn FH færu þrjá metra frá brotstað, eins og reglur kveða á um, og voru því ekki að flýta sér að taka aukakastið. Dómarar leiksins ráku hins vegar Frey Brynjarsson af velli fyrir töf. Haukamenn því tveimur færri í rúma mínútu og nýttu FHingar sér það og jöfnuðu metin.

FH komst fyrst yfir í stöðunni 21 – 20. Þeir leiddu svo með einu til tveimur mörkum það sem eftir lifði leiks. Haukar komust þó yfir í stöðunni 28 – 27 en FH jafnaði 28 – 28 og komust yfir 29 – 28 þegar innan við mínúta lifði leiks. Haukar brunuðu í sókn en Magnús Sigmundsson varði skot þeirra. Freyr náði þó boltanum, gaf á Andra Stefan sem var kominn einn á móti Magnúsi og skoraði. Dómarinn dæmdi þó skref, vægast sagt mjög umdeildur dómur.

Eins marks sigur FH því staðreynd í þessum hörkuleik og FHingar því áfram á toppi deildarinnar með 10 stig. Haukamenn eru áfram um miðja deild með 6 stig.

Næsti leikur Haukamanna er gegn Flensburg á laugardaginn. Leikurinn fer fram á Ásvöllum og hefst klukkan 19:30. Vonandi verður vel mætt á leikinn eins og var á leiknum í dag en Kaplakriki var nánast troðfullur. Það var gaman að sjá svona marga mætta á leik í handboltanum og hefur það ekki gerst í langan tíma.