Hátíð handboltaunnenda – úrslitin ráðast í oddaleik að Ásvöllum á laugardaginn

HaukarDraumur allra handboltaunnenda hefur ræst. Úrslit Íslandsmótsins munu ráðast í oddaleik tveggja bestu liða landsins. Það eru forréttindi fyrir leikmenn beggja liða að fá að upplifa þessa stund. Það er ekkert skemmtilegra en að sigra í oddaleik eftir langan og strangan vetur. Það veit sá sem ritar þessar línur. Tækifæri sem þessi bjóðast fáum og jafnvel bara einu sinni og því er um að gera að nýta það. Haukastrákarnir njóta heimaleikjaréttar í krafti frábærs árangurs í allan vetur þar sem þeir tryggðu sér deildarmeistaratitilinn. Ljóst er að leikurinn er kveðjuleikur Arons Kristjánssonar og Sigurbergs Sveinssonar og við hvetjum allt Haukafólk til að koma og veita þessum heiðursmönnum þá kveðju sem þeim sæmir enda árangurinn einstakur. Það verður hátíðarstemmning á Ásvöllum og við bjóðum ALLA velkomna á meðan að húsrými leyfir. Leikurinn hefst kl. 14:00 á laugardaginn. Hersveit Hauka mun leiða stuðningsmannahóp Haukaliðsins og óhætt er að lofa ólýsanlegri stemmningu í húsinu. Allir á völlinn!