Guðrún Ósk: Er það erfiðasta sem að ég hef upplifað

Guðrún í leik Hauka gegn Keflavík í undanúrslitum - karfan.is

Haukar.is tóku púls á Guðrúnu Ámundadóttur, fyririða Haukaliðsins, sem er fjarri góðu gamni á meðan liðsfélagar hennar berjast um Íslandsmeistaratitilinn við Njarðvík. Serían stendur í 2-1, Njarðvík í vil, en frábær leikur Haukaliðsins í seinasta leik gaf öllum vonarneista um að liðið hafi það sem að þarf til að klára einvígið og eru stelpurnar ákveðnar í að fara alla leið.

Síðast þegar að haukar.is heyrðu í Guðrúnu þá spáði hún því að Haukar myndu sigra seríuna 3-1 en það er nokkuð ljóst að það er ekki að fara að gerast

„Já, vissulega er hún farin út um þúfur en við eigum klárlega ennþá möguleika þó spáin hafi ekki verið rétt hjá mér,“ sagði Guðrún en verst finnst henni að geta ekki tekið þátt í leiknum og hjálpað liðsfélögum sínum inn á vellinum.  

„Að sitja á bekknum og horfa á þessa leiki er það erfiðasta sem ég hef upplifað í körfunni. En ég geri mitt allra besta á hliðarlínunni til að hvetja stelpurnar áfram.“

Fyrsti leikur liðanna féll Haukum ekki í hag en lengst af voru þær yfir en misstu þetta niður í fjórða leikhluta. Annar leikur liðsins var langt frá því að vera eitthvað sem að lið sýnir í úrslitakeppni og var því ljóst að liðið þurfti á sigri að halda í leik þrjú til að halda áfram. Með bakið upp við vegg héldu Haukastúlkur til Njarðvíkur, kláruðu dæmið og var ánægjulegt að sjá liðsmenn brosa og hlægja eftir leikinn en skortur hefur verið á því í fyrstu tveimur leikjunum.

Guðrún sagði að andrúmsloftið væri eðlilega allt annað í herbúðum Hauka og að leikmenn ætli að vera tilbúnar í næsta heimaleik.

„Já við vorum ekki að spila nógu vel sem lið í síðasta heimaleik en stemmingin í hópnum var frábær eftir leikinn í gær og erum við strax farnar að einbeita okkur að næsta leik þar sem við ætlum okkur sigur á heimavelli og er ég viss um að við mætum tilbúnar í þetta skipti.“

„Já, get ekki neitað því að það hafi farið um mann á bekknum á þessum tíma og erfitt að geta ekki hjálpað til inná vellinum,“ sagði Guðrún um sveiflur leiksins en Njarðvíkur liðið réði lögum og lofum á vellinum í fyrri hálfleik en Haukaliðið kom sterkt til baka.

„Við höfðum allar trú á þessu verkefni að við gætum unnið þetta og það kom okkur langt og skilaði sigri í lokinn. Frábær liðsheild.“

Guðrún lofar sigri á laugardaginn og segir að enginn verði svikinn að leggja leið sína á Ásvelli en liðin mætast í fjórða sinni þá.

„Já ég lofa sigri og hef fulla trú á okkur. Síðan vil ég sjá ALLA stuðningsmenn Hauka á svæðinu og láta vel í sér heyra það hjálpar mikið! Áfram Haukar.“