Haukum hefur borist gríðarlegur liðsstyrkur í fótboltanum því einn besti hægri bakvörður landsins, Guðmundur Sævarsson skrifaði í gærkvöld undir samning til 1. árs við Hauka. Guðmundur kemur frá FH þar sem hann hefur leikið alla sína tíð, m.a. undir stjórn Ólafs Jóhannessonar sem nú þjálfar Hauka.
Guðmundur er 34 ára og á að baki 199 leiki með FH, í þeim skoraði hann 17 mörk. Koma Guðmundar í Hauka er eins og áður sagði mikill styrkur fyrir félagið og bætist hann í hóp sterkra leikmanna sem Haukar hafa fengið til liðs við sig að undanförnu, þá Sigurbjörn Hreiðarsson, Val Fannar Gíslason og Magnús Pál Gunnarsson. Með þessa leikmenn innanborðs, ásamt þeim efnilegu heimastrákum sem voru til staðar fyrir hjá Haukum, verður mjög spennandi að fylgjast með gengi liðsins í 1.deildinni í sumar.