Haukar og ÍA mættust á gervigrasinu á Ásvöllum í kvöld í stórleik 5. umferðar 1.deildar karla. Fínt veður var til knattspyrnuiðkunnar og var leikurinn mjög skemmtilegur.
Leikurinn byrjaði rólega en Skagamenn skoruðu fyrsta mark leiksins á 9. mínutu en þá skoraði Andri Júlíusson með góðum skalla eftir fyrirgjöf frá Ólafi Valdimarssyni.
Haukamenn sóttu töluvert meira en gestirnir eftir þetta og mark og jöfnuðu leikinn á 29. mínútu en þá skoraði Andri Janusson eftir sendingu frá Úlfari Hrafni Pálssyni. Þetta var fjórða mark Andra í 1.deildinni í sumar og greinilegt að hann ætlar að raða inn mörkunum fyrir okkur Haukamenn í sumar.
Staðan var því 1-1 þegar Leiknir Ágústsson frábær dómari leiksins flautaði til hálfleiks.
Skagamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og uppskáru mark á 58. mínutu. Heimir Einarsson skoraði markið en markið var einkar klaufalegt af hálfu Haukamanna. Það atvikaðist þannig að Skagamenn fengu hornspyrnu, Arnar Gunnlaugsson tók hana, Amir Mehica kom út í teiginn en náði ekki að grípa boltann og boltinn barst svo til Heimirs Einarssonar sem skoraði í autt markið. En margir Haukamenn vildu fá dæmda aukaspyrnu og töldu að brotið hafi verið á Amir, en frábær dómari leiksins og án efa einn sá besti á landinu, Leiknir Ágústsson sá að sjálfsögðu ekkert athugavert við þetta eins og margt annað í leiknum.
Eftir þetta mark hresstust Haukamenn og tókst þeim að jafna leikinn á 69. mínútu en þar var að verki Hilmar Trausti Arnarsson. Ásgeir Ingólfsson sólaði þá tvo Skagamenn á hægri kantinum lagði svo boltann út á Hilmar Trausta sem skaut yfir Trausta Sigurbjörnsson í marki Skagamanna sem var illa staðsettur í markinu. Hilmar Trausti er einfætur með eindæmum og kaus hann því að skjóta utan fótar með vinstri.
Það var svo á 82. mínútu sem Haukar skoruðu sigurmark leiksins. Hilmar Geir Eiðsson, sem hafði átt mjög góðan dag í Haukaliðinu, fékk boltann á hægri kantinum, hann sendi boltann á fjærstöng þar sem Andri Janusson skaut að marki, Trausti í markinu misreiknaði boltann frá Andra og náði ekki til hans svo boltinn datt fyrir fætur Hilmars Rafns Emilssonar sem átti síðustu snertingu boltans á leið í markið, en snerting Hilmars kom líklega frá nabblanum á honum.
Skagamenn reyndu allt hvað þeir gátu til að jafna leikinn en tókst það ekki og Haukar fögnuðu því 3-2 sigri á Ásvöllum í frábærum fótboltaleik. Haukar eru því enn á toppnum eftir fimm umferðir en Selfyssingar eru í öðru sætinu með sama stigafjölda en Haukar hafa skorað fleiri mörk en þeir og sitja því í efsta sætinu á markatölu.
Við viljum þakka öllum Haukamönnum sem mættu á leikinn og studdu við bakið á okkar mönnum í þessum frábæra sigri, gríðarlega góð mæting var í kvöld og við vonum að fólk haldi áfram að fjölmenna á leiki okkar manna í sumar. Áfram Haukar!
Byrjunarlið Hauka:
Amir Mehica – Gunnar Ásgeirsson (Pétur Ásbjörn Sæmundsson) – Þórhallur Dan Jóhannsson – Goran Lukic – Jónas Bjarnason – Hilmar Geir Eiðsson – Ásgeir Þór Ingólfsson – Hilmar Trausti Arnarsson (Hilmar Rafn Emilsson) – Guðjón Pétur Lýðsson – Úlfar Hrafn Pálsson – Andri Janusson (Garðar Ingvar Geirsson)
Ónotaðir varamenn: Stefán Daníel Jónsson – Kristinn Garðarsson.
Mynd: Hilmar Rafn Emilsson kom inn á sem varamaður og skoraði sigurmarkið í leiknum með nabblanum.