Glæstur sigur í Safamýrinni

Frábær 10 mínútna kafli var undirstaðan í frábærum sigri strákanna okkar á Fram í dag, 37-32.

Strákarnir okkar byrjuðu betur og komstu í 3-1. Framarar komust yfir 4-3, 5-4 og 6-5. Þá snéru strákarnir okkar við blaðinu og náðu mest 5 marka forskoti í fyrri hálfleik 14-9. Staðan í hálfleik var 17-12 okkar mönnum í vil.

Í byrjun síðari hálfleiks náðu Framarar að minnka muninn, mest í eitt mark 20-19 og 21-20. En þá kom frábær kafli okkar manna sem er sennilega einn besti kafli sem strákarnir okkar hafa spilað í langan tíma. Þeir skoruðu hvert glæsimarkið á fætur öðru og hreinlega yfirspiluðu Framarar sem létu það fara í taugarnar á sér. Allt í einu var staðan orðin 32-24 okkar mönnum í vil og sigurinn nánast í höfn. Framarar náðu aðeins að rétta úr kútnum fyrir leikslok, náðu að minnka muninn í 4 mörk en nær komust þeir ekki. Leiknum lauk svo með fimm marka sigri okkar manna 37-32.

Strákarnir spiluðu allir sem einn mjög vel og er erfitt að draga einhvern einn út úr hópnum sem spilaði best. Sigurberg, Beggi, var markahæstur með 12 mörk og Andri Stefan skoraði 10. Hjá Fram var Andri Berg Haraldsson markahæstur með 8 mörk og Haraldur Þorvarðarson kom næstur með 6 mörk.

Þetta var mikilvægur sigur fyrir strákana því í stað þess að Fram næði að jafna okkur að stigum á toppi deildarinnar jukum við forskotið í 4 stig. Næsti leikur strákanna er gegn Stjörnunni um næstu helgi þegar sannkallaður Stjörnudagur verður á Ásvöllum en þá koma fyrst Stjörnustelpur í heimsókn til stelpnanna okkar og síðan Stjörnumenn í heimsókn til strákanna okkar. Nánar um það síðar.

ÁFRAM HAUKAR!!!