Hann var glæsilegur leikur Haukastúlkna á Ásvöllum í kvöld þegar sigur vannst á Fjölnisstúlkum, 4-0 en staðan í hálfleik var 1-0. Markaskorarar Hauka í leiknum voru þær Marcela Franco með tvö, það fyrsta og fjórða, Sara Elnicky með annað markið og Brooke Barbuto með þriðja markið.
Haukar voru í 3. sæti fyrir leikinn í kvöld, með 12 stig eftir 6 leiki en Fjölnir var í 2. sætinu með 15 stig einnig eftir 6 leiki. Mikilvægi leiksins í kvöld var því mikið. Sigur Hauka kemur þeim í 2. sætið á betri markatölu en Fjölnir. Selfoss trónir hins vegar taplaust í efsta sætinu eftir 7 umferðir með 21 stig. Selfoss á eftir að spila bæði við Fjölni og Hauka á útivelli þannig að ýmislegt getur breyst áður en yfir lýkur. Sjá nánari upplýsingar um stöðuna í deildinni hér, http://www.ksi.is/mot/motalisti/urslit-stada/?MotNumer=24186
Heimir Porca þjálfari Hauka var að vonum ánægður eftir leik. Hann sagði, með fullri virðingu fyrir Fjölnisliðinu, að þá hefði aðeins eitt lið verið á vellinum í kvöld og aldrei spurning um úrslit leiksins – aðeins spurning hversu mörg mörk Haukastúlkur skoruðu. Fjölnisstúlkur hefðu aðeins einu sinni í leiknum náð að ógna marki Hauka.
Heimir sagði að það hefði verið mikilvægt að ná sigri eftir að hafa tapað fyrri leiknum við Fjölni í Grafarvogi. Hann hrósaði sínum leikmönnum og sagði alla leikmenn Hauka hafa staðið sig vel, bæði byrjunarliðsleikmenn í kvöld og þá sem inn á komu. Sumir skora mörkin en hjá öðrum eins og miðjumönnum og kantmönnum liggur mikil vinnsla að baki. Liðið væri að smella betur og betur saman og framhaldið liti bara vel út sagði ánægður þjálfari Hauka í lokin.
Næsti leikur Haukastúlkna verður föstudaginn 22. júlí nk. á Ásvöllum og verður þá leikið við Tindastól.
Áfram Haukar!