Glæsilegur sigur Hauka í Evrópukeppninni

Einar Örn Jónsson horfir á eftir boltanum fara í netiðLokamínútur seinni leiks Hauka og Pler KC voru æsispennandi. Ljóst var að Haukum dyggði ekki jafntefli og því kom ekkert annað til greina en sigur. Haukar átti síðustu sókn leiksins og voru einum fleiri því Birkir Ívar skipti við Heimir Óla sem kom inn í sóknina og markið látið standa autt. Sú áhætta bar árangur og Einar Örn Jónsson skoraði sigurmarkið á síðustu sekúndu leiksins – enn eina ferðina. Einar Örn skoraði einnig jöfnunarmarkið í gær og margir muna eftir álíka sigurmarki hans í Evrópukeppninni árið 2001 gegn Sporting Lissabon.

Strákarnir byrjuðu mun ákveðnari en í fyrri leiknum og höfuðu forystu lengst af fyrri hálfleik en staðan var jöfn 12-12 í leikhléi. Ungverjarnir sýndu að þeir eru með hörkulið sem spilar mjög klókan handknattleik og sérstaklega var Peter Lendvay okkar mönnum erfiður. Birkir Ívar átti hins vegar stórleik í markinu og varði á þriðja tug bolta. Sigurbergur Sveinsson var markahæstur með 6 mörk en annars dreifðust mörkin nokkuð jafnt. Pétur Pálsson varð að yfirgefa völlinn vegna meiðsla í fyrri hálfleik og fékk hin ungi Heimir Óli því eldskírn á línunni. Áhorfendur voru mun fleiri en í gær og studdu duglega við bakið á leikmönnum. Markvörður Ungverja varði mjög vel og hafði meðal annars varið vel gegn hornamönnum Hauka. Einar Örn kom hins vegar ískaldur inn á lokamínutunum og kláraði leikinn með stæl eins og áður segir.

Haukamenn þakka öllum sem mættu á Ásvelli fyrir frábæran stuðning. Dregið verður í Evrópukeppninni þriðjudaginn 24. nóvember en leikið verður í febrúar.