Rimman um Íslandsmeistaratitilinn hélt áfram í Schenkerhöllinni að Ásvöllum á laugardaginn. Bæði lið mættu ákveðin til leiks og eftir 16 mínútna leik var staðan 7 – 7 og allt í járnum. Þá kom flottur kafli hjá Haukapiltum þar sem þeir skoruðu 7 mörk gegn 3 og hálfleikstölur voru 14 – 10. Síðari hálfleikur byrjaði með svipuðum hætti. Haukar höfðu frumkvæðið með góðri sókn og sterkum varnarleik en á bakvið vörnina stóð maður leiksins, Giedrius Morkunas, sem varði hvað eftir annað bæði dauðafæri og langskot. Giedrius var líklega að spila sinn allra besta leik í vetur og það var magnað að fylgjast með þessum flotta keppnismanni á milli stanganna. Aðrir leikmenn áttu fínan dag en liðsheildin var sterk og það er nákvæmlega það sem við þurfum til að landa svona flottum sigrum.
Mörk Hauka: Einar Pétur 5, Sigurbergur 5/4, Brynjólfur Snær 3, Árni Steinn 3, Tjörvi 3, Jón Þorbjörn 3, Elías Már 2, Þröstur 1, Jónatan 1,
Markvarsla: Giedrius 25/2 (57%).
Nú erum við í dauðafæri til að verða Íslandsmeistarar í næsta leik sem fer fram í Vestmannaeyjum í dag, þriðjudaginn 13. maí kl. 19:45. Nú erum við aftur komnir í bílstjórasætið og öll pressa verður á Eyjamönnum þar sem þeir mega ekki tapa en við getum tapað sem myndi þýða oddaleik á Ásvöllum fimmtudaginn 15. maí kl. 19:45.
Áhorfendur voru stórkostlegir á laugardaginnog hvöttu liðið sitt duglega áfram. Ég segi enn og aftur að með svona stuðning eru okkur allir vegir færir. Í útsendingu sjónvarpsins talaði þulur ítrekað um hvað stuðningsmenn andstæðinganna væru magnaðir og að það væru laus sæti í stúkunni hjá okkur og að stuðningsmenn andstæðinganna væru jafnvel fleiri. Við látum ekki svona „komment“ á okkur fá en samt er nauðsynlegt að benda á að Ásvellir er eitt af stærri keppnishúsum í handbolta á Íslandi með sæti fyrir 2.200 manns. Stúkan Haukamegin tekur rúmlega 60% af þessum fjölda eða tæplega 1.400 manns. Flest íþróttahús sem er verið að sýna beint frá leikjum í handbolta og körfubolta taka 700 – 1.000 manns í sæti. Húsið í Vestmannaeyjum er fullt upp í rjáfur með 1.000 manns. Við höfum verið með rúmlega 1.700 manns á þessa tvo heimaleiki gegn ÍBV sem er meira en á marga leiki í efstu deild í knattspyrnu. En gott og vel þetta var bara til upplýsinga.
Nú þurfum við að fjölmenna til Eyja og freista þess að klára þetta einvígi þar í dag. Hópferð verður frá Ásvöllum og farið verður af stað til Landeyjarhafnar af stað kl. 16:00 og kostar sætið kr. 2.500. Vinsamlegast pantið sæti með því að senda póst á Dísu, innkaup@haukar.is eða hringja í 525 8700.
Nú mætum við í rauðu með bros á vör og styðjum Hauka til sigurs í Olísdeildinni 2014.
Áfram Haukar!