Þar til í byrjun síðustu viku hafði karlalið Hauka ekki unnið heimasigur í 1. deildinni í sumar. Þar varð heldur betur breyting á því fyrst náðist góður sigur gegn liði Selfoss í byrjun vikunnar og í gærkvöldi tóku strákarnir á móti Víkingi Ólafsvík. Það er skemmst frá því að segja að Haukar sigruðu 1-0 með góðu marki frá Hilmari Rafni Emilssyni á 32 mínútu leiksins. Leikurinn var á köflum vel leikinn og það var aðeins fyrir óheppni og frábæra markvörslu hjá markvörðum liðanna að ekki sáust fleiri mörk á Ásvöllum í gærkvöldi.
Með sigrinum færðust Haukamenn upp í 3ja sæti deildarinnar með 20 stig, jafmörg og Þróttur R. sem er í 4ja sæti en 5 stigum minna en lið Selfoss sem situr sem fastast í 2. sæti. Skagamenn eru stungnir af í deildinni og hafa 34 stig eftir 12 umferðir. Smellið hér til að fá stöðuna, úrslit annarra leikja og leikjaplanið framundan.
Eftir leikinn í gærkvöldi var valinn maður leiksins hjá Haukum. Í þetta skiptið var það varnarjaxlinni Guðmundur Viðar Mete sem varð fyrir valinu. Ófáar sóknir Víkíngs Ó. stoppuðu á honum í gærkvöldi og fékk hann í verðlaun mat fyrir tvo frá KFC. Annars var það mikil barátta og góð liðsheild sem skóp sigurinn öðru fremur. Áhorfendur létu líka vel í sér heyra og hvöttu strákana áfram ásamt hinum öfluga þjálfara þeirra, Magnúsi Gylfasyni, sem er klárlega að vinna mjög gott starf með liðið.
Næsti leikur Hauka er útileikur gegn BÍ Bolungarvík laugardaginn 23. júlí og hefst hann kl 14.00. Spurning um að fjölmenna vestur og styðja við bakið á strákunum.
Áfram Haukar!