Góður sigur Hauka á Njarðvík

/ Axel Finnur

Haukar unnu góðan sigur á Njarðvíkingum í gær, 86-75, þegar grænir litu við á Ásvelli. Með sigrinum endurheimtu Haukar fimmta sæti deildarinnar og minnkuðu muninn á Njarðvíkingum í tvö stig en þeir sitja í fjórða sæti deildarinnar. Aðeins fjórir leikir eru eftir í deildinni og magnast spennan um hvaða lið nær heimavallaréttinum en Haukar og Þór Þorl. virðast ætla að gefa Njarðvíkingum hörku baráttu um það.

Jafnt var á öllum tölum í fyrri hálfleik og leiddu Haukar með einu stigi eftir fyrsta leikhluta 21-20. Sama var uppi á teningnum í öðrum og var jafnt í hálfleik 44-44. Haukar náðu yfirhöndinni í seinni hálfleik og náðu mest 15 stiga forystu undir lok leiks og unnu að endingu með 11 stigum 86-75.

Vörn Hauka var virkilega þétt og dreifðist stigaskor vel á menn. Fimm leikmenn Hauka fóru yfir 10 stig en það var Emil Barja sem að öllum öðrum ólöstuðum var bestur Hauka. Strákurinn kastaði í þrefalda tvennu þegar hann skoraði 13 stig, tók 18 fráköst og gaf 11 stoðsendingar. Terrence Watson var sjálfum sér líkur og bauð upp á tvennu en hann skoraði 20 stig og tók 10 fráköst. 

Tölfræði leiksins

Tengt efni:
Myndasafn eftir Axel Finn
Annað tap Njarðvíkur í röð
Emil Barja barði Njarðvík í gólfið
Flottur sigur Hauka á Njarðvík