Góður seinni hálfleikur dugði ekki til og Haukakonur úr leik

Gunnhildur Pétursdóttir og félagar áttu flottan seinni hálfleik í kvöld. Mynd: visir.isStelpurnar fengu í Val í heimsókn í Schenkerhöllina að Ásvöllum. Þetta var leikur II þessara liða í úrslitakeppni Olísdeildar kvenna en Valsstúlkur voru þegar komnar með einn sigur og urðu Haukar að vinna til að freista þess að knýja fram oddaleik. Það má segja að afleit byrjun hjá Haukum hafi orðið þeim að falli í þessum leik. Það gekk illa að finna leiðina að markinu og fyrsta markið kom ekki fyrr en eftir rúmar 13 mínútur. Eftir 23. mínútna leik var staðan 1 – 11 og fátt sem benti til annars en að Valskonur myndu vinna stórsigur. Haukakonur náðu að laga stöðuna fyrir hálfleik og var staðan að honum loknum 5 – 12. Allt annað var að sjá til Haukaliðsins í seinni hálfleik. Þær voru miklu öflugri í öllum sínum aðgerðum, bæði í sókn og í vörn og smá saman söxuðu þær á forskot Vals. Þegar 8 mínútur voru eftir af leiknum var staðan 13 – 17 og fólk tók við sér á pöllunum í von um að þær næðu virkilega að snúa þessum leik sér í vil. Þrátt fyrir hetjulega baráttu tókst það ekki og lokaniðurstaðan var 17 – 20.
Fast var tekist á í leiknum og ekki mikið skorað. Því miður varð Viktoría Valdimarsdóttir fyrir því óláni að tvíhandabrotna þegar hún féll í gólfið eftir átök við varnarmenn Vals. Við óskum henni góðs bata.

Það var magnað að sjá dugnaðinn í okkar konum í seinni hálfleik en því miður var hann ekki eins góður fyrri hluta leiksins og því fór sem fór. Markvörður Vals var líka okkar stelpum erfiður en hún var með 18 skot varin, 53% markvörslu. Sólveig Björk átti ágætan leik í marki Hauka varði 9 skot, 32% markvörslu. 

Mörk Hauka: Marija Gedroit 7/2, Karen Helga Díönudóttir 4/2,  Ragnheiður Ragnarsdóttir 3, Ásta Björk Agnarsdóttir 2, Gunnhildur Pétursdóttir 1.

Nú er tímabilinu lokið hjá þessu unga og efnilega liði okkar sem hefur sannarlega vaxið í vetur og það verður spennandi að fylgjast með þeim á næsta tímabili. 

Áfram Haukar!