Úrslitakeppnin í Olísdeildinni hélt áfram í gær og fóru Haukapiltar í Kaplakrikann. Það var allt annað sjá til liðsins en í fyrstu viðureignni og góð byrjun lofaði góðu en eftir um 9 mínútna leik var staðan 1 – 4. Haukar náðu þó ekki að halda því forskoti lengi því FH náði fljótlega að jafna og svo skiptust liðin á að skora en góður kafli andstæðinganna í lok fyrri hálfleiks færði þeim þriggja marka forystu í hálleik, 11 – 8. Þar munaði mestu frábæra frammistaða markmanns FH og að sama skapi slök nýting hjá okkar mönnum sem t.d. náðu ekki vel að nýta sér yfirtölu eftir að FH ingar týndust hvað eftir annað útaf með tveggja mínútna brottvísun og voru á kafla þremur færri. Í síðari hálfleik virtust FH ætla að stinga okkar menn af en á 39. mínútu var staðan orðin 15 – 10. En þá kom frábær kafli okkar manna og Einar Ólafur lokaði markinu sem gerði það af verkum að á 45. mínútu var staðan orðin jöfn, 15 – 15. Lokakaflinn var æsispennandi en því miður féll þetta ekki okkar megin og endaði leikurinn með sigri FH, 22 – 19.
Í dag var það sóknin sem varð okkur að falli því vörnin og markvarslan var lengst af í góðu lagi og mikil barátta var í liðinu, það gekk bara oft illa að skora. Einar Ólafur átti góðan dag en hann lék bara í síðari hálfleik og varði 11 skot, þar af 1 víti.
Nú eru okkar menn komnir með bakið upp að veggnum fræga. Þeir verða að vinna næstu þrjá leiki til að sigra þetta einvígi og miðað við tölfræði vetrarins þá er það vel gerlegt. Við skulum bera höfuðið hátt og mæta í Schenkerhöllina á sunnudaginn kemur kl. 16:00 og styðja okkar menn til sigurs.
Mörk Hauka: Sigurbergur Sveinsson 6/1, Tjörvi Þorgeirsson 5, Árni Steinn Steinþórsson 4, Elías Már Halldórsson 2, Jón Þorbjörn Jóhannsson 1, Þórður Rafn Guðmundsson 1.
Markvarsla: Einar Ólafur Vilmundarson 11/1 (50%), Giedrius Morkunas 7 (39%).
Áfram Haukar!