Fyrsti leikurinn við ÍBV um gullið er í kvöld kl. 19:45

Patrekur og strákarnir í mfl. karla hefja leik í kvöld gegn ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn. Mynd: Eva BjörkÚrslitkeppnin í Olísdeild karla heldur áfram í dag og eins og allir vita þá eru Haukapiltar að fara að leika við ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn. Vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari og Haukar, sem deildarmeistarar, eiga heimaleikjaréttinn. Fyrsti leikurinn er í Schenkerhöllinni í kvöld, mánudaginn 5. maí, og hefst hann kl. 19:45.
Þessi lið hafa mæst þrisvar í vetur, einu sinni í Eyjum og tvisvar að Ásvöllum, og í öll skiptin hafa Haukar haft betur. Við sáum það í rimmunni gegn FH að það þarf að mæta að fullum krafti í alla leiki því sigrar í deild hjálpa ekkert í úrslitakeppninni. Eitt af því sem gerði gæfumuninn á móti FH var hvernig Haukafólk sameinaðist og mætti brosandi og með Haukahjartað á réttum stað þegar á móti blés. Við þurfum að halda þessari samstöðu áfram og þá eru okkur allir vegir færir.
Mætum öll í rauðu á pallana í kvöld og látum vel í okkur heyra og styðjum strákana til sigurs.

Áfram Haukar!