Fyrsti leikurinn í kvöld: Haukar fara á Selfoss

Haukastrákar þurfa að standa saman til að ná árangri í veturHaukastrákar hefja leik í kvöld í 1. deild karla þegar þeir leggja land undir fót og fara til Selfossar til að etja kappi gegn FSu. Leikurinn hefst kl. 19.15 og fer fram á heimavelli þeirra FSu manna í Iðu.

Heimasíðan tók Pétur Guðmundsson, þjálfara liðsins, í létt spjall fyrir leik kvöldsins.

Nú var ekki gefin út nein sérstök spá fyrir 1. deildina en fjölmargir hafa samt sem áður sagt Hauka mjög líklega til að fara beint upp aftur. Hvert er þitt mat á því? ,,Það er erfitt að gera sér grein fyrir því hvar við stöndum gagnvart öðrum liðum, þar sem ég þekki ekki styrleika liðanna sem eru þar. Enda mikið um breytingar vegna breyttna regla um erlenda leikmenn. Við erum með gott lið, það er enginn vafi á því og við stefnum á það að fara beint upp aftur og teljum okkur hafa mannskap til þess. Það eru enga síður fleiri lið að sækjast eftir því sama og við. Við höfum æft stíft í sumar og lagt mikið á okkur til að ná settum markmiðum og við höfum sjálfstraustið til að trúa því að það gerist. Með sjálfstraustið að vopni ætlum við að láta verkin tala inn á vellinum og njóta vegferðarinnar sem er framundan hjá okkur“

Hvaða breytingar hafa orðið á hópnum og telurðu að hópurinn sem þú hefur í höndunum hafi það sem þurfi til að stefna að sæti í Domino‘s deildinni að ári? ,,Þær breytingar sem hafa orðið á hópnum er að við höfum misst þrjá erlenda leikmenn og fengið einn í staðinn. Sem mér finnst jákvæð þróun. Örn fór til Hamars, Óskar og Sævar hafa lagt skónna á hilluna, þetta eru allt sterkir leikmenn og munum við sakna þeirra. Við höfum fengið til okkar Þorstein Finnbogason frá Grindavík og Kristinn Marinósson er byrjaður að æfa aftur eftir erfið meiðsli. Einnig hefur Þorbergur Helgi Sæþórsson gengið til liðs við okkar frá Snæfell. Þetta eru allt sterkir leikmenn sem munu koma til með að styrkja okkur í baráttunni í vetur. Ég er mjög ánægður með hópinn okkar, þetta eru ósérhlífnir strákar sem hafa lagt hart að sér til að ná árangri og þeir hafa það sem þarf til að koma okkur upp í Domino´s deildina að ári.“

Haukaliðið er óvenju smávaxið í ár. Heldurðu að það eigi eftir að koma liðinu í koll í frákastabaráttunni? ,,Ég þekki það af eigin raun að þetta er ekki spurning um hver stór þú ert, heldur hve stórt þú spilar. Þannig að ég er sannfærður um þetta mun ekki há okkur. Fráköst eru ekki unnin fyrir ofan hring hér á Íslandi, þetta er allt spurning um vilja þegar þú vilt ná frákasti og þar standa okkar strákar vel að vígi gagnvart öðrum leikmönnum í deildinni.“

Nú var reglum breytt fyrir þetta tímabil og þ.a.l. geta liðin í 1. deild bara teflt fram einum erlendum leikmanni á vellinum í einu. Hver er þín afstaða til þessarar breytingar, telurðu að þetta sé Haukum til hagnaðar? ,,Þetta er klárlega okkur í hag og að mínu mati allri körfuboltahreyfingunni. Það verður auðvitað erfitt fyrir einhver lið að aðlaga sig að breyttum reglum og þurfa að huga meira að yngri flokkum og einnig vinna í því að fá til sín íslenska leikmenn þar sem það á við frá öðrum liðum. En ég ólst upp við þannig stemmningu í körfuboltanum og finnst hún persónulega meira aðlaðandi.“

Hvaða völl verður erfiðast að mæta á í deildinni í vetur? ,,Schenker-höllina.“

Spenntur fyrir leik kvöldsins? ,,Hlakka gríðalega til, þetta er búið að vera langt sumar og miklar æfingar að baki. Það er alltaf gaman þegar undirbúningstímabilinu er lokið og þú færð að sýna uppskeruna sem þú tókst þátt í að búa til. Vona að sem flestum líki hún og komi í Schenker-höllina og njóti þeirra veislu sem strákarnir ætla að bjóða upp á.“

FSu-Haukar í kvöld kl. 19.15 í Iðu á Selfossi